Berglind Sigurðardóttir vakti athygli á stöðu móður sinnar, Dóru Maríu Ingólfsdóttur, á Facebook í gærkvöld. Fyrir tæpum tveimur vikum var Dóra lögð inn á stóra stofu á bráðadeildinni í Fossvogi eftir slæmt fall á heimili sínu. Vegna plássleysis hefur hún verið færð á milli deilda og var botninum náð í gærkvöld þegar Dóru var komið fyrir inni á salerni öldrunardeildar.
Salernið er alltaf opið og gat hún því búist við að vera færð út á hverri stundu.
Hafið þið áður þurft að setja sjúklinga inn á salerni?
„Já, við höfum áður þurft að gera það og við þurfum alveg örugglega að gera það aftur," segir Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri flæðisviðs LSH.
Eru sjúklingar líka frammi á göngum?
„Það eru einhverjir sjúklingar frammi á göngum, núna eru til dæmis nokkuð margir sem bíða eftir innlögn frá bráðamóttökunni inn á deildir. Flæðið er bara allt of hægt," segir Guðlaug.

„Við erum náttúrulega búin að ítreka vanda spítalans í nokkuð langan tíma. Við önnum ekki eftirspurn ef maður getur orðað það þannig," segir Guðlaug.
Helsti vandi spítalans liggur í tvennu. Í fyrsta lagi liggja um 130 manns inni á spítalanum, sem væri hægt að útskrifa, ef til væru hjúkrunarrými. Í öðru lagi er ekki hægt að halda öllum deildum fullopnum vegna skorts á hjúkrunarfræðingum. Á næsta ári stendur til að opna ný hjúkrunarrými en þau mæta ekki vandanum og telur Guðlaug því nauðsynlegt að efla heimaþjónustuna.
„Þetta getur ógnað öryggi sjúklinga og þetta gerir það," segir Guðlaug. „Það er alveg ljóst að okkar viðbrögð, samfélagsins, hafa ekki verið í takti við fjölgun aldraðra og veikra."
Hún segir starfsfólk spítalans dapurt yfir stöðu mála. „Það er bæði ákveðið vonleysi og bara depurð, myndi ég segja. Því þetta er ekki vinnuumhverfi sem fólk vill hafa, bara alls ekki, starfsfólkið vill þjóna sjúklingum vel."