Þrátt fyrir lélegt ástand hefur Sundhöll Keflavíkur, sem hönnuð var af Guðjóni Samúelssyni, hátt varðveislugildi vegna byggingarlistar hússins og menningarsögu. Breytingar sem hafa verið gerðar á húsinu í gegnum tíðina eru að verulegu leyti afturkræfar og listrænt gildi þess nokkuð. Þetta kemur fram í óháðu mati sem gert var á Sundhöll Keflavíkur.
Í júní óskaði húsafriðunarnefnd eftir því að Minjastofnun myndi leggja rökstutt mat á varðveislugildi sundhallarinnar. Nokkur styr hefur staðið um húsið en eigandi þess, Vatnsnessteinn ehf., stefnir að því að láta rífa húsið og byggja þar fjölbýlishús. Hollvinasamtök sundhallarinnar hafa barist fyrir því að húsið fái að standa.
Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ veittu í upphafi árs leyfi fyrir því að rífa húsið, en Fréttablaðið greindi frá því í mars að það var atkvæði bróðurdóttur eiganda hússins sem réð úrslitum í ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Keflavíkur um nýtt deiliskipulag á reitnum þar sem Sundhöllin stendur.
Matið á húsinu var unnið af Hjörleifi Stefánssyni arkitekt. Meta átti fimm þætti; byggingarlist þess, menningarsögulegt gildi, umhverfisgildi, upprunaleikagildi og tæknilegt ástand hússins. „Heildarniðurstaða Hjörleifs er sú að tæknilegt ástand byggingarinnar er mjög slakt. Sé litið til byggingarlistarinnar, eins og húsið stendur núna, þá skorar það ekki hátt en það er hægt að taka til baka breytingar sem gerðar hafa verið á því í gegnum tíðina,“ segir Þór Hjaltalín, sviðstjóri hjá Minjastofnun.
Ysta byrði hússins er í slæmu ástandi en um timburklæðningu er að ræða að stærstu leyti. Undir henni leynist þó upprunalega húsið frá 1944. Þaki var bætt á höllina 1951 og í matinu segir að unnt sé að færa húsið aftur í það mót með auðveldum hætti.
„Breytingar sem gerðar hafa verið á mannvirkinu frá árinu 1944 hafa rýrt gildisþætti, yfirbyggingin jók við notagildið en dró heldur úr listrænu gildi. Útivistarsvæðið bætti notagildið en rýrði listrænt gildi til muna en út yfir allan þjófabálk tók með breytingu á þakbrúnum og timburklæðningu útveggjanna sem voru til verulegs skaða fyrir gildi hússins,“ segir í mati Hjörleifs.
„Staðan núna er þannig að þessi skýrsla verður send húsafriðunarnefnd sem mun funda um málið 13. ágúst. Þá verður tekin afstaða til þess hver næstu skref eiga að vera og hvort friðlýsa skuli húsið,“ segir Þór.
