Fótbolti

Ræða Klopp fyrir tveimur árum kom Liverpool í úrslitin

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Henderson og Klopp á góðum degi
Henderson og Klopp á góðum degi vísir/getty
Ræðan sem Jurgen Klopp gaf lærisveinum sínum í Liverpool eftir úrslitaleikinn í Evrópudeildinni fyrir tveimur árum skilaði liðinu í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu að mati fyrirliðans Jordan Henderson.

Henderson horfði á Liverpool tapa fyrir Sevilla 3-1 af varamannabekknum þar sem hann var ekki heill heilsu. Leikurinn var einn af lægstu punktum ferils Henderson en ræða knattspyrnustjórans á liðshótelinu eftir leikinn lyfti honum upp og fyllti hann metnaði og löngun til að halda áfram og gera betur.

„Við vorum allir langt niðri en þegar við komum til baka á hótelið var stjórinn með frábrugðna ræðu. Hann horfði á víðara samhengi og horfði til framtíðar,“ sagði Henderson við Sky Sports.

„Hann hafði þessa sýn sem fyllti mig trú á að við kæmumst í annan úrslitaleik. Hann vildi að við nýttum reynsluna frá þessum leik, að komast í úrslitaleik, til þess að halda liðinu saman og nota reynsluna á jákvæðan hátt. Ef við kæmumst aftur í úrslit þá yrðum við tilbúnir.“

„Ég man ekki nákvæmlega hvað hann sagði, en hann fann það á sér að þetta var bara byjunin, byrjunin á einhverju sem hann ætlaði að halda áfram með og koma okkur í annan úrslitaleik.“

Liverpool mætir Real Madrid í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu á laugardagskvöld. Leikurinn verður í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×