Ef ríkisstórnin ákveður að sniðganga Heimsmeistaramótið í knattspyrnu verður sú ákvörðun tekin í samráði við nágrannaþjóðir Íslendinga. Þetta segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra í samtali við Vísi. Um þetta er þó allt of snemmt að fullyrða að mati ráðherra. Rúv sagði fyrst frá þessu.
Engin ákvörðun hefur verið tekin í málinu enda segir Guðlaugur að mikilvægt sé að stilla strengi með nágrannaþjóðum okkar og ræða málið til hlítar áður en ríkisstjórnin gerir upp hug sinn.
Sergei Skripal, rússneskur fyrrverandi njósnari, og dóttir hans Yuliu Skripal var byrlað taugaeitur þann 4. mars síðastliðinn. Þau fundust meðvitundarlaus á bekk í Salisbury í Wiltshire í suðurhluta Englands. Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur sagt Rússa ábyrga árásinni, og í mótmælaskyni vísuðu Bretar 23 rússneskum erindrekum úr landi.
„Allar vestrænar þjóðir, held ég að geti fullyrt, eru að hugsa um viðbrögð við þessum atburðum. Þetta er grafalvarlegt mál. Það er of snemmt að fara að fullyrða um það núna. Þetta eru mjög alvarlegir hlutir mjög nálægt okkur, þess vegna vil ég ekki leggja neitt út frá einu eða neinu, til eða frá. Þetta er bara eitt af því sem við erum að skoða með bandaþjóðum okkar,“ segir Guðlaugur.
Hann segir að um þetta verði rætt með nágrannaþjóðum okkar á næstu dögum eða vikum.
