Skagamenn eru enn með fullt hús stiga á toppi Inkasso-deildarinnar. Fjórir leikir fóru fram í þriðju umferð deildarinnar í kvöld.
ÍA tók á móti Haukum á Norðurálsvellinum á Akranesi. Eftir hálftíma leik kom Steinar Þorsteinsson heimamönnum yfir og var staðan 1-0 fyrir ÍA í hálfleik.
Stefán Teitur Þórðarson bætti síðan við tveimur mörkum fyrir ÍA og kom Skagamönnum 3-0 yfir. Daði Snær Ingason náði að klóra í bakkann fyrir Hauka á 84. mínútu en þar við sat. Lokatölur 3-1 fyrir ÍA sem situr á toppi Inkasso-deildarinnar með níu stig af níu mögulegum.
Fram sigraði Leikni 3-0 en leikurinn fór fram á Framvellinum í Safamýri.
Helgi Guðjónsson kom Fram yfir á 21. mínútu og var staðan 1-0 fyrir þeim bláklæddu í hálfleik. Í síðari hálfleik voru það Guðmundur Magnússon og Orri Gunnarsson sem tryggðu Fram sigurinn.
HK hafði betur gegn Selfossi. Leikurinn fór fram í Kórnum í Kópavogi og voru lokatölur 3-1 fyrir HK.
Það var ekki fyrr en á 64. mínútu sem fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós en það skoraði Kári Pétursson fyrir HK. Bjarni Gunnarsson bætti síðan við öðru marki HK-inga skömmu síðar.
Kristófer Páll Viðarsson minnkaði muninn fyrir Selfoss á 89. mínútu með marki úr aukaspyrnu. Sigur HK var þó gulltryggður skömmu síðar með sjálfsmarki frá Kenan Turudija.
Þróttur vann sinn fyrsta leik í sumar þegar liðið sótti öll stigin þrjú í Breiðholtið þar sem ÍR tók á móti þeim. Lokatölur 3-1 fyrir Þrótti.
Ef að einungis korter hafði verið spilað af leiknum voru Þróttarar komnir tveimur mörkum yfir. Mörkin skoruðu þeir Ólafur Hrannar Kristjánsson og Hreinn Ingi Örnólfsson. Skömmu fyrir hálfleik minnkaði Guðfinnur Þórir Ómarsson muninn fyrir ÍR og staðan 2-1 fyrir Þrótt í leikhlé. Þróttarar héldu þó út og á 92. mínútu gulltryggði Jasper Van Der Heyden þeim öll stigin þrjú.
Úrslit dagsins:
ÍA - Haukar 3-1
Fram - Leiknir 3-0
HK - Selfoss 3-1
ÍR - Þróttur 1-3
Upplýsingar fengnar af Fótbolta.net
ÍA enn með fullt hús stiga í Inkasso-deildinni
Einar Sigurvinsson skrifar

Mest lesið

Sjáðu gullstrákana í Vestra fagna: „Vorum bara miklu stærra lið“
Íslenski boltinn




Óskar Hrafn: Stundum hata ég fótbolta
Íslenski boltinn

Rio setti nýtt Liverpool met
Enski boltinn

Sextán ára strákur tryggði Liverpool öll stigin
Enski boltinn

Slot hefur enga samúð með Eddie Howe vegna Isaks
Enski boltinn

Jökull: Förum ekki hærra með svona frammistöðu
Íslenski boltinn
