„Já, þetta er mikill léttir, mikill léttir. Þetta er eiginlega bara besta gjöf sem ég hef fengið, að losna við hann þarna. Svo er bara vonandi að allir komist heilir heim. Þetta er viss áhætta sem er verið að taka,“ sagði Jón þegar hann horfði á Fjordvik losna frá grjótgarði Helguvíkurhafnar.

Hugsaði mikið til félaga síns í Fjordvik
Við björgunaraðgerðir í Helguvík í gær sigldi Jón hafnsögubáti Reykjaneshafnar, Auðuni. Hann sagðist ekki hafa getað setið aðgerðalaus heima. Hans heitasta ósk var sú að Fjordvik yrði losað af strandstað.Jón hugsaði mikið til samstarfsfélaga síns, Karls Óskarssonar hafnsögumanns, sem var um borð í sementsflutningaskipinu í gær. Allt gekk að óskum og Fjordvik var komið inn í Keflavíkurhöfn um tveimur tímum eftir að tókst að losa það af strandstað rétt eftir klukkan sjö í gærkvöldi.