Í fréttum Stöðvar tvö í gær kom fram að bráðabirgðaniðurstöður rannsóknar á vegum Hafrannsóknarstofnunar gefi sterkar vísbendingar um að strokulaxar af norskum eldisuppruna hafi sloppið úr eldiskvíum og blandast villtum löxum í nágrenni eldissvæða - og skýr merki séu um erfðablöndun í tveimur laxastofnum í Botnsá og Sunndalsá.
Formaður Landssambands veiðifélaga, sagði í viðtali að hann hafi áhyggjur af því að leki úr fiskeldi verði að lokum villta stofninum að bráð.
Einar K. Guðfinnsson, formaður landssambands fiskeldisstöðva, mótmælir þessu.
„Tilvikið sem er verið að vísa í er tilvik sem engan veginn er hægt að sanna að hafi valdið erfðablöndun á fiski. Vísindamenn hafa bent á að til að erfðablöndun geti átt sér stað þurfi verulegt magn af eldisfiski að sleppa og það þurfi að gerast á löngum tíma.“
Einar segir að í rannsókninni sé um að ræða mjög litlar ár þar sem lítið laxagengi sé að jafnaði, það hafi verið sleppt laxi til að auka laxagengi og fregnir séu til af því að eldislax hafi farið í sjóinn í nágrenninu fyrir áratugum síðan.
„Það er ámælisvert að þessu sé stillt upp þannig að þetta óheppilega atvik sem gerðist fyrir 2-3 árum sé ástæða þess að fólk telji sig merkja erfðablöndun.“
Einar segir að vissulega þurfi að fara varlega og að Landssamband fiskeldisstöðva hafi hvatt til þess. En að umræðan þurfi að fara á annað plan.
„Þessi umræða undirstrikar að við verðum að hætta að láta ásakanir ganga á vixl - við verðum að styðjast við mælingar og vísindi," segir Einar K. Guðfinnsson, formaður Landssambands fiskeldisstöðva.

