Fyrsta barn ársins hér á Íslandi kom í heiminn klukkan 0:03 á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi.
Herborg Pálsdóttir, ljósmóðir á vakt, segir í samtali við Vísi að um dreng hafi verið að ræða og að fæðingin hafi gengið vel. Þetta er þriðja barn foreldranna sem búa á Selfossi.
Gaman er að segja frá því að móðir drengsins var sjálf fyrsta barn ársins 1980.
Samkvæmt upplýsingum frá fæðingarvaktinni á Landspítalanum við Hringbraut kom fyrsta barn ársins þar í heiminn klukkan 8:01.
Athygli vakti að fyrsta barn ársins 2016 fæddist á Landspítalanum við Hringbraut klukkan 0:01 fyrir ári.

