Erlent

28 létust í hrottalegum fangelsisbardaga í Mexíkó

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ættingjar fanga í Las Cruces-fangelsinu tókust á við lögreglu sem varnaði þeim inngöngu í gær.
Ættingjar fanga í Las Cruces-fangelsinu tókust á við lögreglu sem varnaði þeim inngöngu í gær. Vísir/AFP
28 eru látnir eftir að bardagi braust út milli tveggja stríðandi glæpagengja í fangelsi í suðvesturhluta Mexíkó í gær. Hinir látnu voru fangar í fangelsinu en lýsingar af eftirköstum bardagans eru hrottalegar. BBC greinir frá.

Átökin brutust út í Las Cruces-fangelsinu í borginni Acapulco í Mexíkó en lýsingar á bardaganum eru hrottalegar. Einhverjir voru stungnir til bana, áverkar vegna barsmíða drógu aðra til dauða og enn aðrir voru afhöfðaðir.

Lík fundust víðsvegar um fangelsið er bardaganum lauk, þar á meðal í eldhúsi og á heimsóknasvæði fyrir aðstandendur fanganna.

Mikil öryggisgæsla er nú við fangelsið sem er yfirfullt en um tvö þúsund fangar eru vistaðir þar. Fyrr í vikunni létust 26 eftir bardaga milli stríðandi fylkinga í eiturlyfjaheiminum í Las Varas í Chihuahua-héraði í Mexíkó.

Fyrstu fimm mánuði þessa árs voru rúmlega 11 þúsund morð framin í Mexíkó og í maí síðastliðnum voru þau tæplega 2.200, sem er það mesta í einum mánuði frá árinu 1997.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×