Búið er að ákæra skipstjóra hjólabáts, sem bakkaði yfir kanadíska konu sumarið 2015, fyrir manndráp af gáleysi. Skipstjórinn hafði ekki réttindi til að stjórna bátnum. Að auki virkaði ekki bakkmyndavél bátsins og enginn baksýnisspegill var stjórnboðsmegin. Maðurinn, sem er 24 ára að aldri, á yfir höfði sér allt að sex ára fangelsi. Þetta kemur fram inn á vef RÚV.
Málið hefur verið til rannsóknar hjá Lögreglunni á Suðurlandi í tvö ár. Stefnt er að því að þingfesta málið í Héraðsdómi Austurlands á mánudaginn.
Konan sem lést var ferðamaður hér á landi og var á ferðalagi um Suðurland ásamt fjölskyldu sinni. Þegar slysið átti sér stað fylgdist fjölskyldan með þyrlu lenda á malarsvæði fyrir aftan bátinn. Það var þá sem skipstjórinn bakkaði, án þess að líta aftur fyrir sig.
Í skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa kom fram að skipstjórinn hefði alfarið treyst á þann sem gaf honum merki um að í lagi væri að bakka.Þar kemur einnig fram að fólkið hefði ekki heyrt í bátnum þar sem hávaðinn frá þyrlunni yfirgnæfði hljóðið.
Ekki náðist í Einar Björn Einarsson, eiganda ferðaþjónustufyrirtækisins Jökulsárlóns, við gerð þessarar fréttar.
Skipstjóri hjólabátsins ákærður fyrir manndráp af gáleysi

Tengdar fréttir

Banaslysið við Jökulsárlón 2015: Skipstjóri hjólabátsins var réttindalaus
Í skýrslu RNSA kemur meðal annars fram að skipstjóri Jaka hafði ekki réttindi til þess að stjórna bátnum og að bakkmyndavél Jaka hafi verið óvirk.

Réttindalaus á hjólabát bakkaði yfir ferðakonu
Skipstjóri hjólabáts sem bakkaði yfir konu og varð henni að bana við Jökulsárlón árið 2015 hafði ekki réttindi til að stjórna bátnum. Rannsóknarnefnd samgönguslysa segir að ríkið þurfi að afmarka umferð við lónið til að tryggja öryggi.