Innlent

Tvískinnungur að það megi aka fólki á kjörstað en ekki taka myndir fyrir tónleika

Heimir Már Pétursson skrifar
Vakan hvetur ungt fólk til að nýta kosningaréttinn og þrátt fyrir athugasemdir frá yfirkjörstjórn í Reykjavík norður, til taka af sér sjálfur fyrir utan kjörstaði og deila myndunum á samfélagsmiðlum. Segja skipuleggjendur Vökunnar að tvískinnungur felist í afstöðu yfirkjörstjórnar sem ekki geri athugasemdir við að flokkarnir aki fólki á kjörstað.

Vakan lætur ekki deigan síga þrátt fyrir mótmæli yfirkjörstjórnar í Reykjavík norður og ætla að halda tónleikunum til streitu. Skora þau jafnframt á ungt fólk að mæta á kjörstað.

Mættu fyrir utan utankjörfundaratkvæðagreiðsluna í Smáralind til að mótmæla

Skipuleggjendur Vökunnar mættu fyrir utan utankjörfundaratkvæðagreiðsluna í Smáralind í dag til að mótmæla þeim athugasemdum yfirkjörstjórnarinnar um að ekki mætti verðlauna ungt fólk með tónleikum fyrir að mæta á kjörstað.

Páll Óskar Hjálmtýsson er einn fjölmargra tónlistarmanna sem gefa vinnu sína á tónleikum Vökunnar. Hann las stutta yfirlýsingu frá hópnum fyrir utan utanfundarkjörstaðinn í dag.

„Okkar málstaður er göfugur og snýst um að fá ungt fólk til að kjósa í komandi alþingiskosningum. Við erum ekki að segja ungu fólki hvað það eigi að kjósa, heldur bara að hvetja þau til að nýta kosningaréttinn,“ las Páll Óskar meðal annars upp úr yfirlýsingunni.

Vakan teldi það tvískinnung hjá yfirkjörstjórn að banna að bjóða ungu fólki á tónleika fyrir að mynda sig fyrir utan kjörstaði og deila myndunum, á meðan kjósendum hafi í áratugi verið umbunað með því að aka þeim á kjörstað.

„Ef yfirkjörstjórn finnst það í lagi að veita fólki þau fríðindi að aka því til og frá kjörstað, en á sama tíma neita ungu fólki um svipaða hvatningu og fríðindi sem þessir tónleikar eru, þá er yfirkjörstjórn að senda tvöföld skilaboð,“ sagði Páll Óskar.

Hins vegar árétta aðstandendur Vökunnar að ekki megi taka myndir af sér inni í kjörklefanum eða af kjörseðlinu samkvæmt lögum. Enda getur það ógilt kjörseðilinn.

Finnið þið fyrir því að ungt fólk sýnir þessu verkefni áhuga?

„Já við finnum mikinn áhuga fyrir því. Við erum glöð að sjá hvað fólk er að taka vel í þetta. Það er mikill byr, mikill stuðningur á bakvið okkur. Þess vegna er svolítið leiðinlegt  að það skuli brugðið fyrir okkur fæti með þessu. En skiptir ekki máli, við hvetjum ungt fólk til að koma og kjósa,“ segir Natalie.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×