Meirihluti fjárlaganefndar hefur lagt til að hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu verði frestað og að í staðinn verði álagning komugjalda skoðuð. Ríkisfjármálaáætlun var afgreidd úr fjárlaganefnd í gær en nefndarálitið verður ekki birt fyrr en á morgun.
RÚV greinir frá en þar segir að lagt hafi verið til að breytingum á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu verði frestað og taki ekki gildi fyrr en í fyrsta lagi í ársbyrjun 2019. Komugjöld verði frekar tekin upp en að þau skili mun minni tekjum.
Þetta sé stærsta breytingin en að jafnframt hafi verið lagt til að eignir ríkisins á Keflavíkurflugvelli verði seldar, þar með talin Leifsstöð, til að fjármagna samgönguframkvæmdir og bætur á innanlandsflugvöllum.

