Skemmst er frá því að segja að bókafólk er himinlifandi með hinar frómu fyrirætlanir sem frambjóðendur í kosningaslag höfðu uppi. Egill Örn Jóhannsson, formaður Félags bókaútgefenda, var kátur þegar Vísir heyrði í honum í morgun.
Hæstánægður með fundinn
„Já, ég er auðvitað hæstánægður með fundinn. Útgefendur og höfundar hafa ekki áður staðið fyrir fundi af þessu tagi þannig að ég vissi ekki alveg út í hvað við vorum að fara. En, við troðfylltum salinn og það sköpuðust fínar og uppbyggilegar umræður og frambjóðendurnir virtust flestir skilja vandann sem við stöndum frammi fyrir og að aðgerða væri þörf.

Bókaútgáfa á bjargbrúninni
Þegar formaður Félags bókaútgefenda talar um að grípa til aðgerða er hann að tala um afnám virðisaukaskatts á bækur, frumvarp sem Lilja D. Alfreðsdóttir hefur þegar lagt fram og eru meðflutningsmenn úr öllum flokkum. Hvenær sér Egill Örn fyrir sér að það komi til framkvæmda?
„Ef af verður er nauðsynlegt að þær komi strax til framkvæmda. Við ljúgum engu til um það að aðgerða er þörf í hvelli ef ekki á að fara verulega illa fyrir íslenskri bókaútgáfu. Þetta, eins og stundum er sagt, þolir enga bið. En ég meina það, bókaútgáfa er á bjargbrúninni og jafnvel að verða komin framyfir hana.“
Vilhjálmur Bjarnason ekki í vinsældakeppni
Einn er þó sá maður sem skar sig úr á fundinum, nefnilega Vilhjálmur Bjarnason, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sem virtist ekki vera í vinsældakeppni á fundinum. Hann var ekki á því að rétt væri að gera breytingar á virðisaukaskattskerfinu. Er það ekki eðlilegt sjónarmið, að vilja standa vörð um að það kerfi sé sem einfaldast?

Sporin hræða
En, frómt frá sagt, óttastu ekki að þetta sem þarna var sagt af hálfu stjórnmálamanna sé fagurgali í aðdraganda kosninga?
„Jú, ég er logandi hræddur um það satt að segja,“ segir Egill Örn hreinskilnislega.
„En ég er kannski í eðli mínu svartsýnn og mögulega óþarflega svartsýnn. Bjartsýni mín á að að það komi til afnáms virðisaukaskatts og ný ríkisstjórn setji sér alvöru menningarstefnu til langs tíma jókst þó nokkuð eftir fundinn áðan. En auðvitað hræða sporin.“