Innlent

Með fjórfalt fleiri farþega um borð nærri Reykjavík en leyfilegt

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Varðskipið Þór
Varðskipið Þór Vísir/Anton
Skipstjóri farþegabáts sem var á sjó nærri Reykjavík í gærkvöldi með útrúnnið haffærisskírteini og of marga farþega um borð miðað við það leyfi verður kærður vegna málsins. 45 farþegar voru um borð en hið útrunna leyfi heimilaði aðeins 12 farþega.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst á ellefta tímanum í gærkvöld ábending um að báturinn væri á sjó nærri Reykjavík. Varðskipið Þór var í grenndinni og óskaði stjórnstöðin eftir því að það kannaði málið. Um leið var lögreglu gert viðvart og hún beðin um að taka á móti bátnum þegar hann kæmi til hafnar.

Um ellefuleytið í gærkvöldi sást báturinn í ratsjá varðskipsins en þá var hann rétt norðvestur af Engey á leið til hafnar. Báturinn var ekki með kveikt á AIS-staðsetningarbúnaði og hafði ekki tilkynnt sig úr höfn.

Léttbátur varðskipsins var sendur í átt að farþegabátnum, fóru tveir stýrimenn varðskipsins um borð og fylgdu bátnum til hafnar þar sem lögregla tók á móti honum. Um borð voru 45 farþegar en samkvæmt þágildandi farþegaleyfi bátsins var aðeins heimild til að hafa tólf farþega. Fjórir voru í áhöfn en aðeins einn var lögskráður, sá var háseti. Hinir voru einungis með hluta af nauðsynlegum réttindi.

Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni segir að Landhelgisgæslan liti þetta mál alvarlegum augum.

„Báturinn var án haffæris, lögskráningu áhafnar ábótavant, báturinn með óvirkan AIS-búnað og tilkynnti sig ekki úr höfn. Síðast en ekki síst voru næstum því fjórum sinnum fleiri farþegar um borð en farþegaleyfið heimilaði. Ekki þarf að hafa mörg orð um hve alvarlegt ástand hefði getað skapast ef báturinn hefði lent í hafsnauð en bjargir hefðu að líkindum verið mun lengur berast sökum þess að hann var hvorki í ferilvöktun né hafði hann tilkynnt sig úr höfn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×