Rússneska dagblaðið Novaya Gazette, segist hafa heimildir fyrir því að lögregla í Téteníu, héraði í Rússlandi, hafi handtekið 100 menn grunaða um samkynhneigð. AP greinir frá.
Í laugardagsútgáfu rússneska blaðsins segir að blaðamenn hafi fengið staðfestingu á handtökunum innan stjórnkerfisins í Téteníu.
Þá er einnig greint frá því að þrír af þeim sem handteknir voru hafi látist.
Talsmaður forseta Téteníu, Ramzan Kadyrov, hafnar þessum ásökunum og sagði að raunar að samkynhneigð fyrirfinndist ekki í héraðinu.
„Það er ómögulegt að ofsækja þá sem eru ekki til staðar,“ sagði talsmaðurinn.
Kadyrov, sem nýtur stuðnings Vladimirs Putins, Rússlandsforseta, hefur í gegnum tíðina verið sakaður um ýmiskonar mannréttindabrot.
