Innlent

Stefán Hallur stígur til hliðar sem kennari við LHÍ til að „axla ábyrgð og skapa frið“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Stefán Hallur Stefánsson leikari hefur hætt sem stundarkennari við Listaháskóla Íslands í kjölfar #metoo umræðunnar.
Stefán Hallur Stefánsson leikari hefur hætt sem stundarkennari við Listaháskóla Íslands í kjölfar #metoo umræðunnar. Vísir/Ernir
Stefán Hallur Stefánsson leikari hefur hætt sem stundarkennari við Listaháskóla Íslands. Stefán Hallur staðfestir þetta í samtali við Vísi en DV greindi fyrst frá málinu. Stefán Hallur segir að ákvörðunin hafi verið tekin eftir gott samtal við Steinunni Knútsdóttur forseti sviðslistadeildar og Stefán Jónsson, fráfarandi fagstjóra á leikarabraut sviðslistadeildar Listaháskóla Íslands.

„Við höfum verið að eiga mörg samtöl undanfarið í kjölfarið af þessari umræðu sem upp hefur komið. Í kjölfarið af því var þessi ákvörðun tekin.“

Ætlar að hlusta og breyta

Fyrr í dag sögðum við frá því hér á Vísi að Stefán Jónsson hafi ákveðið að stíga til hliðar í kjölfar #metoo byltingarinnar. Stefán sagði í samtali við Vísi í dag að sumar þeirra reynslusagna sem konur í sviðslistum og kvikmyndagerð hafi fjallað um sinn tíma í starfi, hjá kennurum undir hans stjórn og aðra fyrir sína tíð.

Sjá einnig: Stefán Jónsson stígur til hliðar vegna #metoo 

Stefán Hallur segir að þessi ákvörðun tengist vissulega #metoo byltingunni.

„Þetta tengist eftir minni bestu vitund ekki ákveðnum sögum sem birtar hafa verið heldur þeirri þörfu umræðu sem að bæði núverandi og fyrrverandi nemendur skólans hafa átt við stjórnendur skólans. Þetta tengist þessum þörfu breytingum sem þarf að gera í kjölfarið af þessari umræðu og bara til að axla ábyrgð og skapa frið, vinnufrið, og sýna samstöðu með þessari byltingu í rauninni. Að axla sína ábyrgð og hlusta og breyta í samræmi við sýna samvisku.“

Hann vonar að þessar breytingar sem verið er að gera muni hafa jákvæð áhrif á andrúmsloftið innan skólans. „Ég held að þetta hljóti að gera það. Það er allavega mín einlæg von og trú að það geri það.“

Aðgerðirnar framundan eru listaðar skilmerkilega á heimasíðu Listaháskólans

Aðspurður hvort ákvörðunin tengist ákvörðun Stefáns nafna hans svarar Stefán Hallur: „Þetta er vissulega náttúrulega í samráði við skólann, þetta er allt útfrá okkar samtali.“ 

Hann segir ákvörðunina tekna undir áhrifum af þeim þörfu breytingum sem verið er að gera í skólanum. Ekki náðist í Steinunni Knútsdóttir við vinnslu fréttar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×