Innlent

Leggur til að hælisleitendur fái jólauppbót

Kjartan Kjartansson skrifar
Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, vill koma jólauppbót hælisleitenda í fastari skorður.
Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, vill koma jólauppbót hælisleitenda í fastari skorður. Vísir/Ernir
Sigríður Á. Andersen, dómsmálráðherra, ætlar að leggja það til við ríkisstjórnina að hælisleitendur fái greidda jólauppbót af fé sem ríkisstjórnin hefur til umráða. Ríkisútvarpið greinir frá þessu í kvöld.

Tíðkast hefur að tvöfalda upphæðina sem hælisleitendur fá í fæðispening í jólavikunni. Með reglugerðarbreytingu var sú uppbót hins vegar afnumin. Sigríður segir við RÚV að sú venja hafi ekki verið gömul en að hún vilji koma uppbótinni í fastar skorður. Hún telji að hælisleitendur eigi að njóta jólauppbótar eins og aðrir.

„Ég hef lagt til, í samráði við forsætisráðherra, og mun leggja það til á ríkisstjórnarfundi á morgun, að ríkisstjórnin ráðstafi af því fé sem hún hefur til umráða fjárhæð sem kemur til móts við hælisleitendur þessa vikuna,“ segir dómsmálaráðherra við RÚV.

Hjálparsamtök fyrir hælisleitendur höfðu gagnrýnt afnám uppbótarinnar og kallað hana ómannúðlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×