Innlent

Lísa og Bergþóra aðstoða Katrínu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lísa Kristjánsdóttir og Bergþóra Benediktsdóttir.
Lísa Kristjánsdóttir og Bergþóra Benediktsdóttir. Forsætisráðuneytið
Lísa Kristjánsdóttir og Bergþóra Benediktsdóttir hafa verið ráðnar aðstoðarmenn Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Lísa Kristjánsdóttir hefur verið aðstoðarmaður Katrínar Jakobsdóttur, sem formanns Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, frá árinu 2013. Hún hefur starfað með Vinstrihreyfingunni - grænu framboði um árabil og m.a. verið kosningastjóri hreyfingarinnar fyrir allar þingkosningar frá árinu 2007.

Lísa var aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra árin 2009-2010 og sat í Þjóðleikhúsráði á árunum 2009-2013. Hún starfaði auk þess lengi innan kvikmyndaiðnaðarins sem aðstoðarleikstjóri, var verslunareigandi í Flatey á Breiðafirði og hefur gegnt starfi viðburðastjóra hjá bókaútgáfunni Bjarti og Veröld svo fátt eitt sé nefnt.

Lísa er stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð og leggur nú stund á MBA- nám við Háskóla Íslands með starfi.

Bergþóra lætur nú af störfum sem framkvæmdastjóri þingflokks Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, en hún gegndi áður starfi mannauðsstjóra hjá Plain Vanilla. Þá starfaði hún innan hótelgeirans  á árunum 2006-2013, m.a. sem forstöðumaður gistisviðs Radisson-Blu Hótel Sögu og sem hótelstjóri, bæði hér á landi  og erlendis.

Bergþóra situr í stjórn Félagsstofnunar stúdenta og hefur gegnt stjórnarformennsku þar frá árinu 2017. Bergþóra er stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri og með B.A. próf í stjórnmálafræði og málvísindum frá Háskóla Íslands. Hún var formaður Röskvu og sat í Stúdentaráði Háskóla Íslands og í stjórn ráðsins á námsárunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×