Innlent

Íslenska bókin er innflutt og handverk gæti glatast úr landi

Sveinn Arnarsson skrifar
Íslendingar telja sig bókhneigða. Nú er svo komið að prentun harðspjaldabóka mun að mestu leggjast af á Íslandi á næsta ári.
Íslendingar telja sig bókhneigða. Nú er svo komið að prentun harðspjaldabóka mun að mestu leggjast af á Íslandi á næsta ári. vísir/vilhelm
Í jólabókaflóðinu í ár eru 202 titlar prentaðir á Íslandi. Það er fækkun um 70 titla frá árinu áður. Aðeins einn af hverjum þremur titlum er prentaður hér á landi.

Í Kína, Slóveníu, Finnlandi, Lettlandi og Eistlandi eru samtals prentaðir 268 titlar fyrir íslenska jólabókaflóðið í ár.

Georg Páll Skúlason, formaður Grafíu
Ljóst er að með breytingum hjá prentsmiðjunni Odda, þess eðlis að þeir muni hætta að prenta harðspjaldabækur strax í byrjun næsta árs, er ljóst að nánast öll prentun fyrir jólabókaflóðið mun flytjast úr landi.

Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins, segir þetta ekki heppilega þróun. Hann hafi í lengstu lög reynt að prenta bækur hér á landi. Mikilvægt sé að handverkið, prentun og bókband, glatist ekki hér á landi.

„Þetta er ekki heillavænlegt fyrir okkur Íslendinga, sem viljum kenna okkur við að vera bókaþjóð, að prentun sé alfarið að flytjast úr landi. Það er mjög mikilvægt að þetta handverk glatist ekki,“ segir Egill Örn.

Egill Örn Jóhannsson, Framkvæmdarstjóri Forlagsins
„Einnig erum við að klóra okkur í kollinum yfir hvernig endurprentun eldri titla verður hjá okkur þegar Oddi getur ekki lengur prentað fyrir okkur,“ bætir Egill Örn við.

Georg Páll Skúlason, formaður Grafíu sem er félag bókagerðarmanna, segist hafa áhyggjur af því að enn meiri prentun streymi úr landi. Fáir mennti sig í iðngreininni, prentun og bókbandi til að mynda, og af því hefur Georg Páll sérstakar áhyggjur.

„Það verður mjög erfitt að viðhalda þeirri þekkingu sem þarf ef áfram heldur sem horfir í prentuninni. En þetta er víst partur af samkeppninni við útlönd að ódýrari markaðir gera prentsmiðjum hér á landi erfitt fyrir,“ segir Georg Páll.

Grafía harmaði á sínum tíma ákvörðun Odda um að hætta harðspjaldaprentun hér á landi. Hún fæli í sér fækkun starfa og að áhrif þess yrðu óafturkræf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×