Erlent

Louis C.K.: „Þessar sögur eru sannar“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Louis C.K. hefur viðurkennt að ásakanir um ósæmilega kynferðistilburði hans séu sannar og biður konurnar afsökunar.
Louis C.K. hefur viðurkennt að ásakanir um ósæmilega kynferðistilburði hans séu sannar og biður konurnar afsökunar. Vísir/Getty

Louis C.K. hefur viðurkennt að ásakanir um ósæmilega kynferðistilburði hans séu sannar. Louis baðst afsökunar í dag en New York Times fjallaði í gær um ásakanir fimm kvenna á hendur grínistans um að hann hafi áreitt þær kynferðislega. Bandaríska sjónvarpsstöðin HBO sleit í dag samstarfi sínu við Louis í kjölfar ásakananna og hefur fjarlægt þætti hans úr streimisveitu sinni. 



„Þessar sögur eru sannar. Á þessum tíma, sagði ég sjálfum mér að það sem ég gerði væri í lagi þar sem ég hafi aldrei sýnt konu kynfæri mín án þess að spyrja fyrst, sem er líka satt. Það sem ég hef lært seinna í lífinu, of seint, er að þegar þú hefur vald yfir annarri manneskju, er það að biðja viðkomandi að horfa á kynfæri þitt ekki spurning.“



Segist hann hafa misnotað vald sitt yfir þessum konum.

„Ég hef séð eftir gjörðum mínum. Og ég hef reynt að læra af þeim. Og flýja frá þeim. Nú er ég meðvitaður um hversu djúp áhrif þetta hafði. Ég komst að því í gær hvernig þetta lét konunum sem litu upp til mín líða illa og gerði þær varkárar í kringum menn sem hefðu aldrei sett þær í þessar aðstæður. Ég nýtti mér þá staðreynd að ég var dáður í mínu samfélagi og þeirra, sem kom í veg fyrir að þær sögðu frá.“

Hann segir einnig að þær sem sögðu frá hafi átt erfitt með það þar sem fólk sem leit upp til hans vildi ekki hlusta.



 „Ég fyrirgef mér ekki fyrir neitt af þessu.“



Ásakanirnar á hendur C.K. koma úr ýmsum áttum og spanna talsvert langt tímabil. Var hann meðal annars sakaður um að afklæða sig fyrir framan konurnar og einnig stunda sjálfsfróun fyrir framan einhverjar þeirra. Louis segir í tilkynningunni sem hann sendi frá sér í kvöld að hann sé miður sín yfir því sem hann hafi valdið þessum konum.



Hann bað einnig FX network, The Orchard framleiðsluverið og leikara og starfsfólk kvikmyndarinnar „I Love You Daddy.“ Sýningu á kvikmyndinni hefur verið frestað í kjölfar ásakana í garð Louis C.K. en hann bæði skrifar og leikstýrir myndinni ásamt því að leika í henni sjálfur. Frumsýna átti myndina í gær.



Hann segist hafa eytt ferlinum sínum í að segja það sem hann vildi en ætli nú að taka eitt skref til baka og gefa sér tíma til að hlusta.



„Ég hef sært fjölskyldu mína, vini mína, börnin mín og móður þeirra.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×