Lífið

Sólborg ætlar að snoða sig fyrir börn í neyð: „Þetta er bara hár“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Blaðamaðurinn Sólborg Guðbrandsdóttir ætlar að raka af sér hárið ef 1.500.000 krónum safnast í Neyðarsjóð UNICEF.
Blaðamaðurinn Sólborg Guðbrandsdóttir ætlar að raka af sér hárið ef 1.500.000 krónum safnast í Neyðarsjóð UNICEF. Aðsent
Blaðamaðurinn Sólborg Guðbrandsdóttir ætlar að raka af sér hárið ef söfnun fyrir Neyðarsjóð UNICEF nær 1.500.000 krónum. Eins og kom fram á Vísi fyrr í dag standa þær Erna Kristín Stefánsdóttir (ernuland) og Sara Monsour (Saramansour96) fyrir áskorunum á áhrifavalda til þess að aðstoða við söfnun UNICEF fyrir börn sem hafa þurft að flýja ofbeldisöldu í Mjanmar.

„Sara hafði samband við mig og sagði mér frá vandamálinu og fyrir hverju þær væru að safna og þá var ég ekki lengi að ákveða að ég þyrfti að gera eitthvað til að hjálpa. Maður er svo fljótur að loka augunum fyrir því sem er að gerast út í heimi en maður getur ekki gert það, við þurfum einhvern vegin að finna leiðir til að láta gott af okkur leiða hérna á Íslandi,“ segir Sólborg en hún er blaðamaður hjá Víkurfréttum, farðar hjá leikfélagi í Keflavík og hefur líka ótrúlega gaman af því að syngja.

„Ég væri mjög til í að vinna við það einn daginn, það er svona í vinnslu.“



Vildi ekki láta hræðslu stoppa sig

Sjálf hefur Sólborg ekki notað Snapchat til söfnunar áður á þessu ári sem hún hefur verið með opinn Snapchat aðgang (sunnykef) en var samt fljót að slá til. Hún kom svo sjálf með hugmyndina að áskoruninni eftir að lesa frétt á Vísi um stúlku sem lét hárið fara fyrir góðan málstað, samtökunum Útmeð‘a.



Sjá einnig: Alexandra lét lokkana fjúka fyrir góðan málstað

„Sara var þá búin að hafa samband við mig og ég var að reyna að finna út úr því hvað ég gæti gert til að fá fólk til að styrkja. Ég var aðeins búin að velta því fyrir mér að snoða mig en svo þegar ég sá þessa stelpu snoða sig fyrir gott málefni og viðbrögð litlu stúlkunnar sem vildi fá hárið hennar í hárkollu, það kom mér alveg niður á jörðina.

Ég ákvað því að slá til. Ég þurfti virkilega að fara að rífa mig í gang ef ég ætlaði að leyfa einhverri hræðslu hjá mér um álit annarra af mér hárlausri, gera það að verkum að ég hjálpi ekki börnum í neyð.“

UNICEF
Dugleg að tjá sína skoðun

Hún er ekkert stressuð fyrir því að breyta um hárgreiðslu með svona afgerandi hætti.

„Þetta er bara hár, þegar jafn ómerkilegur hlutur og hár getur orðið til þess að einhver annar lifir mannsæmandi lífi þá er það lítið mál. Við erum farin að hugsa allt of mikið um það hvernig við lítum út. Árið 2017 þá skiptir útlit allt of miklu máli þegar maður hugsar um fólk. Ég held að ég hafi miklu meira fram að færa heldur en hvernig hár ég er með. Í samanburði við það sem þessi börn eru að glíma við alla daga þá er hárið mitt ekki neitt.“

Sólborg ætlar að gefa hárið í hárkollugerð fyrir börn ef það er hægt, hún er þó ekki viss um að það gangi þar sem það hafi verið litað oft. Hún er með nokkur þúsund fylgjendur á Snapchat (sunnykef) og á Instagram (solborgg) og heldur líka úti annarri vinsælli Instagram síðu þar sem hún birtir myndir af kynferðislegu áreiti á netinu.

Brynja og Gói hafa staðið við sín heit

„Á Snapchat sýni ég mikið frá mínu lífi og inn á milli ræði ég málefni eins og til dæmis útlitsdýrkun, kynferðislega áreitni á netinu og fleira. Ég er dugleg að tjá mig ef mér finnst eitthvað mega betur fara í samfélaginu. Ég er með Instagram sem heitir Fávitar og þar sýni ég skjáskot af áreiti sem fólk verður fyrir á netinu.“

Sólborg er ekki sú fyrsta sem aðstoðar söfnunina með þessum hætti. Í dag lét Brynja Dan Gunnarsdóttir (brynjadan) aflita á sér augabrúnirnar og á mánudaginn mætti Ingólfur Grétarsson (goisportrond) í klappstýrubúning í vinnuna, búin að raka af sér öll líkamshár nema á höfðinu. Allt er þetta gert fyrir góðan málstað. Sólborg segir að samfélagið í dag sé samt að mörgu leiti brenglað.

Brynja Dan og Gói Sportrönd hafa bæði þurft að standa við sitt heit og sýndu auðvitað frá því á Snapchat.Samsett
„Það er frekar fáránlegt að við séum að snoða okkur, aflita augabrúnirnar, fara í vax og fleira til að fá fólk til að styrkja þetta málefni. En við gerðum bara það sem þarf til og þetta er að virka, í kringum 1,2 milljón hefur safnast. Þegar 1,5 milljón hefur safnast þá snoða ég mig á Snapchat. Þetta væri samt aldrei að gerast án Ernu og Söru sem hafa látið þetta gerast.“

Þær Erna og Sara segja í samtali við Vísi að þær séu ótrúlega ánægðar með viðtökurnar við söfnuninni en þegar þetta er skrifað hafa safnast 1.166.400 krónur.

„Ég myndi segja að ástæðan fyrir því að við ákváðum að sameina krafta samfélagsmiðla er að þetta er frábær leið til að ná til margra. Við vissum að þetta myndi virka og keyrðum þetta strax í gang. Ástæðan fyrir því að okkur fannst tilvalið að taka aðra áhrifavalda inn í myndina er vegna þess að fyrir ári síðan þá safnaði ég 1,7 milljón fyrir vannærð ungbörn í Nígeríu. Ef ég gat það þá ættum við að ná enn lengra fleiri saman.

Við erum báðar með mikla ástríðu þegar kemur að málefnum barna og fannst okkur þetta aldrei spurning. Sara gefur mér óendanlega mikinn innblástur enda fyrirmynd og baráttukona sem hræðist ekki að synda á móti straumnum. Ég tel mig einstaklega heppna að vinna þetta verkefni með henni. Við erum gott teymi og erum svo þakklátar þeim sem hafa tekið sér tíma til þess að hjálpa við söfnunina,“ segir Erna Kristín. 

Erna Kristín og Sara eru ánægðar með viðtökurnar við áskorununum og söfnun UNICEF.Samsett
Hægt er að styrkja söfnunina um 1.500 krónur með því að senda skilaboðin UNICEF í 1900. Einnig er tekið á móti frjálsum framlögum á síðu UNICEF og í gegnum millifærslu í reikningsnúmerið 701-26-102050 og kennitölu 481203-2950.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×