Innlent

Forstöðumaður á Landspítalanum segir það algjöra vitleysu að líma fyrir munninn á næturnar

Birgir Olgeirsson skrifar
Grein eftir einkaþjálfara vakti mikla athygli þar sem hann sagðist sofa með teipað fyrir munninn. Um algjöru vitleysu er að ræða segir forstöðumaður svefnmælinga hjá Landspítalanum.
Grein eftir einkaþjálfara vakti mikla athygli þar sem hann sagðist sofa með teipað fyrir munninn. Um algjöru vitleysu er að ræða segir forstöðumaður svefnmælinga hjá Landspítalanum. Vísir/Getty
„Ég fann enga vísindagrein um þetta mál,“ segir dr. Erna Sif Arnardóttir, forstöðumaður svefnmælinga hjá Svefndeild Landspítala og formaður Hins íslenska svefnrannsóknafélags, í samtali við Vísi um grein eftir einkaþjálfarann Rafn Franklín sem sagðist sofa með límband fyrir munninn til að sofa betur.

Greinin hans Rafns vakti mikla athygli á Facebook og sömuleiðis grein sem var birt á Vísi um málið.

Rafn heldur því fram að þessi aðferð hefði margvísleg jákvæð áhrif á heilsuna, það er að segja að nota límband til að koma í veg fyrir að maður sofi með opinn munninn og andi þess í stað með nefinu, sem er fólki eðlislægt.

Erna Sif Arnardóttir.
Erna Sif segist í samtali við Vísi hafa leitað sérstaklega eftir því hvort það væru einhver vísindaleg rök fyrir að þetta gæti staðist, en fann þau hvergi.

Eina vísindagreinin sem hún fann um málið var rannsókn á fólk sem er með astma. Rannsóknin náði yfir þrjátíu daga þar sem fólk svaf með límband fyrir munninn til að hvetja til neföndunar og hafði það engin áhrif á astmaeinkenni.

Munnöndun á sér stað þegar eitthvað er að

„Maður fer ekki yfir í munnöndun í svefni nema það sé eitthvað að; þrengingar, skekkja í nefi, ofnæmi eða einfaldlega kvef. Þá er einhver ástæða fyrir því að þú átt í erfiðleikum með að anda með nefinu og þá byrjar þú að anda með munninum. Þú leysir ekki vandann með því að teipa fyrir munninn á fólki,“ segir Erna.

Hún segir eitt af helstu einkennum kæfisvefns vera þurran munn á morgnanna. „Þannig að ef fólk er að lenda ítrekað í því og upplifir syfju og þreytu að degi til er mun betra að það tali við sinn heimilislækni og láti athuga hvort það sé með kæfisvefn,“ segir Erna.

Í grein sinni lýsti Rafn hrotum og allskonar vandræðum í svefni. Erna segir það gefa ástæðu til að athuga með kæfisvefn eða aðra svefnsjúkdóma.

„Þú leysir maður ekki málin með því að teipa fyrir munninn á þér.“

Erna segir það leysa engan vanda að teipa fyrir munn á fólki sem andar með munninum þegar það sefur.Vísir/Getty
Svefnrannsókn betri leið

Erna Sif segir að mannfólkinu sé eðlislægt að anda með nefinu og að það sofi oft verr þegar það er t.d. kvefað af því að þá getur það ekki andað með nefinu.

Ef vísbendingar eru um kæfisvefn, hrotur og öndunarerfiðleika á nóttunni, þá getur heimilislæknir vísað fólki í svefnrannsókn. Erna segir að boðið sé upp á svefnmælingu á Landspítalanum. Þar mætir fólk að degi til og fær einfaldan mælibúnað til að taka með sér heim. Þeir sem fá slíkan búnað sofa með hann í eina nótt. Síðan eru fengnar upplýsingar úr búnaðinum um svefn einstaklinga og hægt að fara í viðeigandi meðferð ef á þarf að halda.

Nefsprey og aðgerðir

Aðrar ástæður geta legið að baki sem valda því að fólk andar ekki með nefinu á nóttunni og við því eru ýmsar meðferðir, t.d. nefsprey og aðgerðir hjá háls- nef og eyrnalæknum ef þetta er að valda fólki miklum vandræðum. Einnig er mikilvægt að láta skoða börn sem eru með mikla munnöndun að nóttu á staðaldri, þar sem þetta er einnig einkenni kæfisvefns hjá börnum með víðtæk heilsufarsáhrif.

„Það er ýmislegt annað hægt að gera en að teipa fyrir munninn og um að gera að leita til læknis til að ræða málin frekar en að leita í slíka vitleysu,“ segir Erna Sif.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×