Gunnar segir að bílnum hafi verið ekið á eðlilegum hraða eftir bryggjunni þar sem hann stöðvaði aldrei áður en hann fór fram af bryggjunni. Um er að ræða bryggjuna við höfnina á Árskógssandi þar sem farþegar fara í Hríseyjarferjuna. Gunnar segir kantinn á þeirri bryggju lágan og enga fyrirstöðu fyrir bíl.

„Aðstæður voru því frekar leiðinlegar,“ segir Gunnar.
Þrennt var í bílnum, par og ungt barn, sem komst aldrei út úr bílnum. Fóru kafarar á eftir bílnum og náðu fólkinu í land.
Gunnar segir vitni á vettvangi ekki hafa haft tækifæri til að gera nokkuð í stöðunni. Bíllinn sökk fljótlega eftir að hann fór í sjóinn.
Fjara var á þeim tíma sem slysið varð, en byrjað að falla að samkvæmt flóðaspám. Var því fallið ekki mikið fram af bryggjunni að sögn Gunnars, um einn til tveir metrar.

Fólkið var búsett í Hrísey og á heimleið þegar slysið varð. Ekki er hægt að greina frá nöfnum þeirra að svo stöddu.
Samveru- og bænastund verður haldin í Hríseyjarkirkju klukkan sex í dag þar sem íbúar eyjarinnar munu hittast og minnast þeirra sem fórust í slysinu.