Innlent

Vinstri stjórn í kortunum

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Leiðtogar flokkanna í myndveri Stöðvar 2 á fimmtudag.
Leiðtogar flokkanna í myndveri Stöðvar 2 á fimmtudag. Vísir/ernir
Samtal um myndun ríkisstjórnar frá vinstri til miðju er komið á fullt milli nokkurra flokka. Þetta herma heimildir Fréttablaðsins. Einn viðmælandi blaðsins gengur svo langt að fullyrða að vinstri stjórn verði svo gott sem innsigluð strax á kosninganótt.

Vinstri græn og Samfylking eru burðarásarnir í þeirri stjórn sem er í kortunum. Flokkarnir tveir ná 24 mönnum á þing samkvæmt nýjustu könnun Fréttablaðsins og vantar því átta þingmenn til að ná meirihluta á þing. Enginn þeirra þriggja flokka, Viðreisn, Framsóknarflokkur og Píratar, sem sagðir eru eiga aðild að því vinstra samtali sem er í gangi, hefur nægan þingmannafjölda til að hægt sé að mynda þriggja flokka stjórn, miðað við nýjustu kannanir.

Forystumenn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar eru hins vegar með ólík sjónarmið um hverjir þessara flokka eigi að mynda límið í stjórn; Framsóknarflokkurinn eða Viðreisn báðir saman eða annar hvor þeirra að Pírötum viðbættum.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins vilja Samfylkingarmenn heldur mynda stjórn með Pírötum og Viðreisn enda eiga þessir flokkar mun meira sameiginlegt málefnalega en Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn og má þá nefna bæði stjórnarskrármálin og áherslur í Evrópumálum.

Þá telja heimildarmenn blaðsins líklegt að Samfylking gangi með öðrum hvorum þessara flokka og jafnvel báðum til formlegra viðræðna um stjórnarmyndun og leiki þannig sama leik og Björt framtíð og Viðreisn gerðu eftir síðustu kosningar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.