Innlent

Katrín: Skemmtilegast að hitta fólk augliti til auglitis

Atli Ísleifsson skrifar
Katrín Jakobsdóttir kaus í Hagaskóla um klukkan 10.
Katrín Jakobsdóttir kaus í Hagaskóla um klukkan 10. Vísir/Anton
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, kveðst bjartsýn og segir að flokksmenn eigi von á því að Vinstri græn bæti við sig fylgi í þessum kosningum. Hún greiddi atkvæði í Hagaskóla um klukkan 10 í morgun.

„Þetta er búin að vera skemmtileg barátta. Við höfum verið að fara aftur til upprunans ef svo má að orði komast – gengið í hús, haldið fundi og mikið verið að hitta fólk augliti til auglitis. Það hefur verið það skemmtilegasta finnst mér, af því að það snýst náttúrulega allt um fólk, stjórnmálin.“

Katrín segir það mikilvægast að eiga þessi beinu samtöl og að því leyti hafi þetta verið ótrúlega skemmtileg kosningabarátta.

Hún telur einnig að þetta muni vera mjög spennandi kosningar sem sést best á könnunum sem hafa birst síðustu daga. „Þær eru nokkuð misvísandi. Ég hugsa að allir formenn flokkanna verði vakandi til klukkan sex í nótt til að fylgjast með.“



Ertu bjartsýn á að það muni takast að mynda kosningar fljótlega eftir kosningar?

„Ég er nú bara róleg yfir því. Ég held að reynsla síðasta árs kenni okkur að stressa okkur ekkert of mikið. Við erum búin að læra af þeirri reynslu. Auðvitað myndum við ríkisstjórn en það kann að verða flókið. Það er engin leið að segja til um það núna, í ljósi spennunnar um úrslitin,“ segir Katrín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×