Erlent

Mótmæla strangri löggjöf um fóstureyðingar

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
Á Írlandi er réttur fósturs til lífs stjórnarskrárvarinn.
Á Írlandi er réttur fósturs til lífs stjórnarskrárvarinn. visir/skjáskot
Þúsundir Íra mótmæltu í Dyflinni í dag til þess að vekja máls á fóstureyðingarlöggjöf í landinu sem af mörgum er talin úrelt. Réttur „ófæddra barna"til lífs er stjórnarskrárvarinn en nýlega var boðað til þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem kosið verður um framtíð ákvæðisins.

Ákvæðið kom inn í stjórnarskrá Írlands árið 1983 og leggur það blátt bann við fóstureyðingum, nema líf móður liggi við. Konur sem gangast undir ólöglega fóstureyðingu geta búist við refsingu sem getur numið allt að fjórtán árum í fangelsi. Þúsundir írskra kvenna ferðast út fyrir landsteinana ár hvert til þess að gangast undir aðgerðir sem binda enda á meðgöngu þeirra.

Um er að ræða sjöttu skipulögðu mótmælagönguna í ár vegna löggjafarinnar en gangan í dag var óvenjuvel sótt vegna tilkynningarinnar um yfirvofandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Ýmsir þekktir aðgerðasinnar tóku til máls er göngunni lauk.

Þjóðaratkvæðagreiðslan verður líklegast haldin snemmsumars á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×