Innlent

Útlit fyrir kosningar 28. október

Kjartan Kjartansson skrifar

Bjarni Benedtiksson, forsætisráðherra, ætlar að rjúfa þing strax á morgun. Það þýðir að þingkosningar verða haldnar 28. október. Forseti Alþingis ætlar að funda með formönnum stjórnmálaflokkanna á morgun til að ræða framhald þingstarfa.

Eftir að birt hefur verið tilkynning um þingrof þarf að halda nýjar þingkosningar innan 45 daga frá útgáfu tilkynningarinnar. Rjúfi Bjarni þing á morgun má því ekki halda kosningar til nýs þings síðar en 28. október. 

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, staðfestir að forsætisráðherra hafi hringt í sig og tjáð henni að hann hygðist ganga á fund Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, strax í fyrramálið og óska eftir heimild til að rjúfa þing.

Ætla að ræða framhaldið á fundi í hádeginu
Jafnvel þó að þing verði rofið strax á morgun getur Alþingi fundað fram að kjördag. Sumir leiðtogar flokkanna hafa lagt áherslu á að lokið verði við nokkur mál sem þeir telja brýn, þar á meðal lög um veitingu ríkisborgararétts.

Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis, segir að hún hafi boðað formenn stjórnmálaflokkanna sem eiga sæti á þingi á sinn fund kl. 12:30 á morgun. Þar standi til að ræða hvernig þingstörfum verður háttað fyrir kosningar.

Þegar formenn flokkanna gengu á fund forseta Íslands í gær virtist sem að niðurstaðan yrði að kosið yrði 4. nóvember. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að enginn hafi sett sig upp á móti hvorri dagsetningunni sem er.

Vísar hann hins vegar á forsætisráðherra um svör við því hvers vegna hann ætlar að óska eftir heimild til þingrofs strax á morgun.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.