Innlent

Útlit fyrir kosningar 28. október

Kjartan Kjartansson skrifar
Bjarni Benedtiksson, forsætisráðherra, ætlar að rjúfa þing strax á morgun. Það þýðir að þingkosningar verða haldnar 28. október. Forseti Alþingis ætlar að funda með formönnum stjórnmálaflokkanna á morgun til að ræða framhald þingstarfa.

Eftir að birt hefur verið tilkynning um þingrof þarf að halda nýjar þingkosningar innan 45 daga frá útgáfu tilkynningarinnar. Rjúfi Bjarni þing á morgun má því ekki halda kosningar til nýs þings síðar en 28. október. 

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, staðfestir að forsætisráðherra hafi hringt í sig og tjáð henni að hann hygðist ganga á fund Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, strax í fyrramálið og óska eftir heimild til að rjúfa þing.

Ætla að ræða framhaldið á fundi í hádeginu

Jafnvel þó að þing verði rofið strax á morgun getur Alþingi fundað fram að kjördag. Sumir leiðtogar flokkanna hafa lagt áherslu á að lokið verði við nokkur mál sem þeir telja brýn, þar á meðal lög um veitingu ríkisborgararétts.

Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis, segir að hún hafi boðað formenn stjórnmálaflokkanna sem eiga sæti á þingi á sinn fund kl. 12:30 á morgun. Þar standi til að ræða hvernig þingstörfum verður háttað fyrir kosningar.

Þegar formenn flokkanna gengu á fund forseta Íslands í gær virtist sem að niðurstaðan yrði að kosið yrði 4. nóvember. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að enginn hafi sett sig upp á móti hvorri dagsetningunni sem er.

Vísar hann hins vegar á forsætisráðherra um svör við því hvers vegna hann ætlar að óska eftir heimild til þingrofs strax á morgun.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.