Innlent

Brynjar ekki lengur formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Brynjar Níelsson, fráfarandi formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.
Brynjar Níelsson, fráfarandi formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Vísir/Anton Brink
Jón Steindór Valdimarsson er nýkjörinn formaður stjórnskipunar-og eftirlitsnefndar og Svandís Svavarsdóttir 1. Varaformaður. Jón Steindór tilkynnti þetta í upphafi opins fundar nefndarinnar sem hófst upp úr klukkan 10 í morgun.

Fundurinn er í beinni útsendingu á Vísi en hávær krafa hefur verið meðal annarra nefndarmanna þess efnis að Brynjar myndi víkja úr formannssætinu á meðan nefndin fjallaði um mál er tengdust uppreist æru.

Meirihluti nefndarinnar komst að þeirri niðurstöðu í upphafi fundar nefndarinnar í morgun að Jón Steindór, þingmaður Viðreisnar, yrði kjörinn formaður nefndarinnar og Svandís Svavarsdóttir, þingmaður VG, fyrsti varaformaður. Áður var Brynjar formaður og Jón Steindór varaformaður.

Brynjar hefur í tengslum við mál er varða uppreist æru lagt áherslu á að einstök mál yrðu ekki rædd og upplýsingar ekki birtar. Þetta er fyrsta afleiðing stjórnarslitanna á nefndir Alþingis.

Fram hefur komið að Brynjar þekkti Robert Downey, dæmdan kynferðisbrotamann sem fengið hefur uppreist æru, og þá var Brynjar verjandi annars kynferðisbrotamanns sem fékk uppreist æru. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fékk gögn í máli Robert Downey til skoðunar en þingmenn meirihlutans í nefndinni kusu að skoða ekki gögnin á fundi nefndarinnar. 

Þá hafði Brynjar útilokað að rannsókn færi fram á starfsháttum forsætisráðherra og dómsmálaráðherra sem þingflokkur Viðreisnar hafði farið fram á.

Ekki náðist í Brynjar við vinnslu fréttarinnar en hér að neðan má heyra viðtal við Brynjar úr Harmageddon í morgun.

Fréttin hefur verið uppfærð.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×