Innlent

Brynjar ekki lengur formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Brynjar Níelsson, fráfarandi formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.
Brynjar Níelsson, fráfarandi formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Vísir/Anton Brink

Jón Steindór Valdimarsson er nýkjörinn formaður stjórnskipunar-og eftirlitsnefndar og Svandís Svavarsdóttir 1. Varaformaður. Jón Steindór tilkynnti þetta í upphafi opins fundar nefndarinnar sem hófst upp úr klukkan 10 í morgun.

Fundurinn er í beinni útsendingu á Vísi en hávær krafa hefur verið meðal annarra nefndarmanna þess efnis að Brynjar myndi víkja úr formannssætinu á meðan nefndin fjallaði um mál er tengdust uppreist æru.

Meirihluti nefndarinnar komst að þeirri niðurstöðu í upphafi fundar nefndarinnar í morgun að Jón Steindór, þingmaður Viðreisnar, yrði kjörinn formaður nefndarinnar og Svandís Svavarsdóttir, þingmaður VG, fyrsti varaformaður. Áður var Brynjar formaður og Jón Steindór varaformaður.

Brynjar hefur í tengslum við mál er varða uppreist æru lagt áherslu á að einstök mál yrðu ekki rædd og upplýsingar ekki birtar. Þetta er fyrsta afleiðing stjórnarslitanna á nefndir Alþingis.

Fram hefur komið að Brynjar þekkti Robert Downey, dæmdan kynferðisbrotamann sem fengið hefur uppreist æru, og þá var Brynjar verjandi annars kynferðisbrotamanns sem fékk uppreist æru. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fékk gögn í máli Robert Downey til skoðunar en þingmenn meirihlutans í nefndinni kusu að skoða ekki gögnin á fundi nefndarinnar. 

Þá hafði Brynjar útilokað að rannsókn færi fram á starfsháttum forsætisráðherra og dómsmálaráðherra sem þingflokkur Viðreisnar hafði farið fram á.

Ekki náðist í Brynjar við vinnslu fréttarinnar en hér að neðan má heyra viðtal við Brynjar úr Harmageddon í morgun.

Fréttin hefur verið uppfærð.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.