Innlent

Dæmdur barnaníðingur ók grunnskólabörnum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hjalti Sigurjón Hauksson neitar alfarið að hafa brotið á stjúpdóttur sinni. Hann tjáði samstarfsmanni að þau hefðu átt í ástarsambandi.
Hjalti Sigurjón Hauksson neitar alfarið að hafa brotið á stjúpdóttur sinni. Hann tjáði samstarfsmanni að þau hefðu átt í ástarsambandi. Vísir/GVA
Dæmdur barnaníðingur sem veitt var uppreist æra í september í fyrra, var rekinn úr starfi hjá rútufyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu í fyrra eftir að upp komst um sögu hans og að hann hefði ekið grunnskólabörnum. Hann hafði þá starfað hjá fyrirtækinu í um þrjá mánuði.

Ekkert kom fram um kynferðisbrot hans gagnvart börnum á sakavottorði sem hann framvísaði við ráðningu í starfið. Á hefðbundnum sakarvottorðum eru ekki tilgreindir dómar ef meira en fimm ár eru liðin síðan viðkomandi lauk afplánun.

Manninum hefur ítrekað verið sagt upp störfum sem bílstjóri undanfarin ár eftir að vinnuveitendur hafa komist á snoðir um dóminn sem hann hlaut árið 2004.

Brotin áttu sér stað frá leikskólaaldri

Maðurinn, Hjalti Sigurjón Hauksson, hlaut fimm og hálfs árs fangelsisdóm árið 2004 fyrir að hafa nær daglega samræði eða önnur kynferðismök við stjúpdóttur sína yfir tólf ára tímabil. Stúlkan var fimm ára þegar brotin hófust.

Brotin voru mjög gróf og áttu sér bæði stað á heimili þeirra sem og afviknum stöðum, í fjallgöngum og á hótelherbergjum í utanlandsferðum.

Stúlkan sagði manninn hafa misnotað sig kynferðislega „frá því hún man eftir sér og fram að þeim tíma er hún fór að heiman 18 ára gömul“ eins og segir í dómi Hæstaréttar. 

Gaf sig á tal við börnin 

Það var í fyrravor sem Hjalti starfaði sem bílstjóri hjá Teiti Hópferðum. Einn daginn tók hann að sér skólaakstur og kom í ljós að hann ók börnum fyrrverandi stjúpdóttur sinnar umræddan dag. Gaf hann sig á tal við börnin. Í framhaldinu barst ábending um hann til fyrirtækisins.

Samkvæmt upplýsingum frá Teiti Hópferðum framvísaði Hjalti hreinu sakavottorði þegar hann sótti um starfið og hafði öll tilskilin réttindi. Eftir ábendinguna var hann kallaður fyrir yfirmenn og spurður hvort rétt væri að hann hefði hlotið dóm fyrir kynferðisbrot. Hann viðurkenndi það og var í framhaldinu sagt upp störfum.

Í framhaldinu voru settar upp nýjar vinnureglur hjá Teiti hópferðum þar sem þess er krafist að á sakavottorðinu komi fram hvort viðkomandi hafi hlotið dóm fyrir kynferðisbrot eða líkamsárás. 

Auðvitað kemur upp að menn gangi í öll störf og eins og allir vita er alvörumál að aka börnum. Það er ekki liðið að menn með slíka forsögu aki skólabílum.

Sagðist hafa verið dæmdur fyrir skjalafals

Hjalta hefur endurtekið verið sagt upp störfum hjá rútufyrirtækjum undanfarin ár vegna brotasögu hans. Hann starfaði um tíma hjá Strætó en var látinn fara eftir að ættingi bar kennsl á hann undir stýri.  Sjálfur segist Hjalti í samtali við Stundina hafa misst vinnuna þrettán sinnum af þessum sökum.

Fyrrverandi vinnufélagi Hjalta, Gunnar Magnús Diego, steig fram í síðustu viku og greindi frá kynnum þeirra fyrir um áratug. Þá hafði Hjalti lokið afplánun á dómi sínum og sýndi hann því mikinn áhuga að Gunnar væri óvirkur alkóhólisti. Varð Gunnar sömuleiðis áhugasamur þegar Hjalti tjáði honum að hann hefði undanfarin ár verið innan um marga sem glímdu við áfengis- og vímuefnavandamál.

„Þessar umræður vöktu smá forvitni hjá mér hvort Hjalti hafi verið starfsmaður á meðferðar stofnun eða eitthvað annað slíkt þar sem ég hef notið mér aðstoð þeirra á sínum tíma. Hann sagði við mig að hann hafi verið inni á Litla-Hrauni þegar hann var með þessu fólki, ég spurði hvort að hann hafi verið starfsmaður þar en hann hristi hausinn og sagðist hafa verið að afplána dóm sem hljóðaði upp á 5 og ½ ár fyrir skjalafals. Ég var undrandi! Ekki bara að hann verið fangi á Litla-Hrauni, heldur hafði ég aldrei heyrt um slíkan þungan dóm, einungis fyrir skjalafals.“

Í varðstofunni á Litla Hrauni.Vísir/Anton Brink
Ætlaði að yfirgefa konuna fyrir dótturina

Gunnar Magnús keypti ekki fimm og hálfs árs dóm fyrir skjalafals.

„Hjalti sagði að þetta hafi allt verið fyrverandi eiginkonu hans að kenna, hún hafi logið upp á hann allskonar viðbjóði, enda væri hún veik á geði. Hann hafi verið að bjarga dóttur hennar þar sem móðir hennar hafi átt að hafa beitt hana miklu ofbeldi. Síðar hafi þau orðið ástfanginn, þetta hafi verið raunverulegt ástarsamband!“

Hjalti tjáði Gunnari að hann ætlaði að yfirgefa fyrrum eiginkonu sína fyrir dóttur hennar og taldi að högum hennar væri miklu betur borgið hjá sér en móðurinni. Hann væri bjargvættur hennar. Gunnar segist þarna hafa verið orðinn nokkuð ruglaður og velt fyrir sér hvort rétt væri það sem hann heyrði. Að maðurinn hefði verið í ástarsambandi við stjúpdóttur sína.

Gunnar segir Hjalta hafa tjáð sér að þetta væri hið eina rétta. Hann væri að bjarga henni frá skaðlegum aðstæðum frá móður hennar. Þetta hefði verið raunverulegt, þau hefðu verið ástfangin og ætlað að gifta sig. Aðspurður hve gömul stúlkan hefði verið svaraði Hjalti, þrettán - alveg að verða fjórtán.

Í dómnum yfir Hjalta kemur fram að stjúpdóttirin hafi talið að hún væri ólétt með kærasta sínum þegar hún var átján ára. Hann hafi verið ánægður en sagst hafa tekið af henni loforð um að fyrsta barnið hennar yrði þeirra. 

Í dómnum segir:

Það væri svo skemmtilegt leyndarmál á milli þeirra að hann væri ,,bæði faðirinn og afinn”

Gunnar greindi yfirmönnum sínum frá samtali sínu við Hjalta. Var Hjalta í framhaldinu sagt upp störfum.

Dæmdur án sannana

„Sko, það er eitt að vera dæmdur án sannana, það er mjög alvarlegt og ég er ekki að hanga í því af því að það hentar mér. Málið er að það er enn verið, þegar þú ert búinn að sitja af þér og búinn með allt saman, þá er enn verið að níðast á þér,“ sagði Hjalti í samtali við Stundina á dögunum.

Málsmeðferð tók töluverðan tíma þar sem Hjalti var upphaflega sýknaður í héraðsdómi. Hæstiréttur ómerkti þann dóm og var málið tekið upp í héraði að nýju.

Þar var Hjalti dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi en einn af þremur dómurum vildi sýkna hann þar sem hann taldi brot hans ekki sönnuð gegn staðfastlegri neitun. Hæstiréttur staðfesti dóminn.

Hjalti er á Facebook eins og bróðurpartur Íslendinga. Á hann tæplega 700 vini en athygli vekur að bróðurparturinn er konur á öllum aldri frá Asíu. Hefur hann skrifað athugasemdir við myndir stúlkna, sem ætla má að séu á táningsaldri, þar sem hann segir þær „meiriháttar sexý“. 

Athygli vekur að Hjalta var veitt uppreist æra sama dag og Robert Downey, þann 16. september í fyrra. Tveir dæmdir kynferðisbrotamenn fengu því uppreist æru sama dag. Til að fá uppreist æru þurfa að vera liðin fimm ár frá afplánun og færa þarf sönnun fyrir því að hegðun hafi verið góð á umræddum tíma.

Rétt er að taka fram að með uppreist æru fá menn ekki hreint sakavottorð. Þeir fá hins vegar óflekkað mannorð og endurheimta réttindi sem þeir glötuðu við það að fá fangelsisdóm, svo sem kjörgengi til Alþingiskosninga. Lögmenn þurfa óflekkað mannorð til að fá héraðsdómslögmannsréttindi og hið sama gildir um endurskoðendur sem vilja fá réttindi sem löggiltir endurskoðendur.

Robert Downey fékk uppreist æru þann 16. september síðastliðinn líkt og Hjalti Hauksson.Kompás
Læsa inni og henda lyklinum

Umræða um uppreist æru hefur verið hávær undanfarnar vikur eftir að Robert Downey, dæmdur kynferðisbrotamaður sem áður hét Róbert Árni Hreiðarsson, endurheimti lögmannsréttindi sín í júní með dómi Hæstaréttar. Robert fékk þriggja ára fangelsisdóm árið 2008 fyrir kynferðisbrot gegn fjórum unglingsstúlkum.

Forsenda þess að Robert fékk lögmannsréttindin á ný var uppreist æru hjá forseta Íslands í september í fyrra. Með því öðlaðist hann óflekkað mannorð samkvæmt lögum. Forseti Íslands tjáði sig í framhaldinu um ákvörðunina að veita uppreist æru, ákvörðun sem margir furðuðu sig á.

Guðni sagðist ekki hafa vitað um hvaða mann ræddi þegar hann skrifaði undir beiðni Robert Downey og þrjár til viðbótar, þar með talinn beiðni Hjalta Sigurjóns, þann 16. september. Undirstrikaði forsetinn að ákvörðunin væri tekin í dómsmálaráðuneytinu.

Ég er bara eins og aðrir Íslendingar, held ég, að þegar kynferðisafbrot eru annars vegar þá vill maður helst að brotamaðurinn sé læstur inni og lykllinum hent sagði forsetinn.Vísir
„Þann 16. september í fyrra fékk ég fjórar svona beiðnir. Ég fæ engan rökstuðning, engin fylgigögn, einungis nafn og lengd dóms. Svo segir. „Nú þykja skilyrði vera fyrir hendi til þess að verða við framangreindri beiðni vil ég leyfa mér að leggja til að yður, forseti Íslands, mætti þóknast að veita nefndum manni uppreist æru sinnar að því er snertir framangreindan dóm,“ sagði Guðni.

 „Samúð mín er auðvitað öll hjá þeim sem þessi brotamaður braut á. Að þurfa að þola þessa upprifjun núna. Ég er bara eins og aðrir Íslendingar, held ég, að þegar kynferðisafbrot eru annars vegar þá vill maður helst að brotamaðurinn sé læstur inni og lykllinum hent. En við búum líka í réttarríki og leyfðu mér að ítreka þetta - ákvörðunin er ekki tekin hérna.“

Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, mun leggja til breytingar á lögum er varða uppreist æru á þingi í haust.Vísir/Ernir
Uppreist æru heyri sögunni til

Dómsmálaráðherra Sigríður Á. Andersen greindi frá því á opnum fundi allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis að hún hygðist leggja það til við Alþingi í haust að ákvæði í almennum hegningarlögum sem snúa að uppreist æru verði alfarið felld úr lögum.

Samhliða breytingum sem lagðar verða til á almennum hegningarlögum þyrfti þá að leggja til breytingar á fjölmörgum lagabálkum sem kveða á um að menn þurfi að hafa óflekkað mannorð til að geta gegnt ýmsum störfum og embættum.

Sagði ráðherra að lagt yrði til að þeim ákvæðum yrði þá breytt á þá leið að skýrt yrði nákvæmlega hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að geta gegnt þessum ákveðnu störfum og embættum, til að mynda að viðkomandi mætti ekki hafa hlotið refsidóma fyrir ákveðið mörgum árum.

32 fengið uppreist æru undanfarin 22 ár

Frá árinu 1995 til 2017 sóttu 86 um uppreist æru til dómsmálaráðuneytisins. 32 var veitt uppreist æra en 54 var hafnað. Fimm menn sem hlotið höfðu dóm fyrir kynferðisbrot, þar af þrír fyrir brot gegn börnum, fengu uppreist æru. Sömuleiðis þrír sem voru dæmdir fyrir morð.

Algengasta ástæða höfnunar var þó sú að viðkomandi hafði hlotið skilorðsbundinn dóm eða málinu hafði verið lokið með sekt.

Dómsmálaráðherra lýsti á fundi allsherjar- og menntamálenefndar því verklagi sem snýr að veitingu uppreistar æru sem vélrænu. Sigríður sagði að það væri ekki góð þróun á stjórnsýslu að ráðherra á hverjum tíma sé settur í það á hverjum tíma að afgreiða svona mál vélrænt og bera ábyrgð á þeim. 

Þá hefði borið á því að það væri ekki léttbært fyrir ráðherra að taka ákvörðun um uppreist æru í tilteknum málum, og þá sérstaklega þeim sem sneru að alvarlegustu brotunum. Því hefði verið margsinnis skoðað ítarlega hvort hendur ráðherra væru bundnar af þeirr stjórnsýsluhefð sem myndast hefur við afgreiðslu málanna og lýtur stjórnsýslurétti í víðum skilningi. 

Niðurstaðan hefði alltaf verið sú að ráðherra væri bundinn af þessu og að honum væri ekki heimilt að teknu tilliti til stjórnsýsluréttar að undanskilja ákveðna brotaflokka eða byggja afgreiðslu mála á persónulegu mati sínu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.