Erlent

Barbúda sögð gjöreyðilögð eftir Irmu

Kjartan Kjartansson skrifar
Gervihnattamynd sýnir stöðu Irmu austur af Dóminíska lýðveldinu og Haítí kl. rúmlega 18 að íslenskum tíma í dag.
Gervihnattamynd sýnir stöðu Irmu austur af Dóminíska lýðveldinu og Haítí kl. rúmlega 18 að íslenskum tíma í dag. Vísir/AFP
Meira en 90% bygginga á eyjunni Barbúda á mörkum Karíba- og Atlantshafs eyðilögðust þegar fellibylurinn Irma gekk þar á land í gærkvöldi.

The Guardian hefur þetta eftir Gaston Browne, forsætisráðherra Antígva og Barbúda, sem heimsótti síðarnefndu eyjuna í dag. Um 1.500 íbúar eyjarinnar voru algerlega sambandslausir við umheiminn í meira en hálfan sólahring eftir að eyjan lenti í miðju fellibyljarins.

Browne segir að einn hafi farist á Barbúda. Í símtali þaðan endurtók hann ítrekað að eyðileggingin á eyjunni væri alger, að sögn The Guardian.

Veðurstofa Bandaríkjanna segir að Irma sé nú tæpum 90 kílómetrum austnorðaustan af San Juan á Púertó Ríkó. Vindstyrkur fellibyljarins er enn gríðarlegur, að því er kemur fram hjá Reuters-fréttastofunni.

Þegar Irma gekk á land í Karíbahafi í dag náði hún í annað sæti á lista yfir öflugustu fellibylji sem hafa gengið á land á jörðinni frá því að athuganir hófust, jöfn tveimur öðrum byljum. Hún er fimmta stigs fellibylur. Það er hæsta stig fellibylja samkvæmt algengustu skilgreiningu veðurfræðinga.


Tengdar fréttir

Irma hefur þegar valdið miklum skaða

Gérard Collomb, innanríkisráðherra Frakklands, segir fjögur sterkbyggðustu byggingar eyjunnar Saint Martin vera eyðilagðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×