Innlent

Auka hraðann til að ná Reykjavík fyrir lokun

Kristján Már Unnarsson skrifar
Douglas DC 3-vélin hóf hnattflugið frá Genf í Sviss í marsmánuði.
Douglas DC 3-vélin hóf hnattflugið frá Genf í Sviss í marsmánuði. Mynd/Breitling.
Flugmenn Douglas DC-3 flugvélarinnar, sem er á leiðinni milli Grænlands og Íslands, hafa gefið hreyflunum aukið afl í von um að ná inn til Reykjavíkur fyrir lokunartíma vallarins klukkan 23 í kvöld. Að öðrum kosti neyðast þeir til að lenda í Keflavík.

Vélin átti upphaflega að lenda í Reykjavík klukkan 16 í dag. Brottför frá Narsarsuaq tafðist hins vegar vegna ísingarhættu og bilunar. Þegar vélin loksins fór á loft síðdegis sýndi endurreiknuð flugáætlun að hún myndi ekki ná til Reykjavíkur fyrr en klukkan 23:18, en samkvæmt reglum flugvallarins eru lendingar bannaðar þar eftir klukkan 23:00.

„Ég var að fá upplýsingar um að DC 3 hefur aukið hraðann vegna lokunar Reykjavíkurflugvallar. Þeir áætla núna klukkan 22:40 og lenda því í Reykjavík,“ sagði Tómas Dagur Helgason, formaður Þristavinafélagsins, á tíunda tímanum í kvöld. Hér má fylgjast með flugi vélarinnar.

Þessi 77 ára gamli forngripur er í sex mánaða hnattflugi á vegum svissneska Breitling-úraframleiðandans í því skyni að setja heimsmet. Henni er ætlað að verða elsta flugvélin til að fljúga umhverfis jörðina. 

Á morgun, sunnudag, er fyrirhugað að íslenski þristurinn Páll Sveinsson og Breitling-þristurinn fljúgi saman yfir Reykjavík og nágrenni. Tímasetning flugsins hefur ekki verið ákveðin.


Tengdar fréttir

Hnattflugsþristur á leið til Keflavíkur

Douglas DC-3 flugvélin, sem er á leið umhverfis jörðina, fór á loft frá Narsarsuaq-flugvelli nú síðdegis og áætlar lendingu á Keflavíkurflugvelli upp úr klukkan 23 í kvöld




Fleiri fréttir

Sjá meira


×