Innlent

Auka hraðann til að ná Reykjavík fyrir lokun

Kristján Már Unnarsson skrifar
Douglas DC 3-vélin hóf hnattflugið frá Genf í Sviss í marsmánuði.
Douglas DC 3-vélin hóf hnattflugið frá Genf í Sviss í marsmánuði. Mynd/Breitling.

Flugmenn Douglas DC-3 flugvélarinnar, sem er á leiðinni milli Grænlands og Íslands, hafa gefið hreyflunum aukið afl í von um að ná inn til Reykjavíkur fyrir lokunartíma vallarins klukkan 23 í kvöld. Að öðrum kosti neyðast þeir til að lenda í Keflavík.

Vélin átti upphaflega að lenda í Reykjavík klukkan 16 í dag. Brottför frá Narsarsuaq tafðist hins vegar vegna ísingarhættu og bilunar. Þegar vélin loksins fór á loft síðdegis sýndi endurreiknuð flugáætlun að hún myndi ekki ná til Reykjavíkur fyrr en klukkan 23:18, en samkvæmt reglum flugvallarins eru lendingar bannaðar þar eftir klukkan 23:00.

„Ég var að fá upplýsingar um að DC 3 hefur aukið hraðann vegna lokunar Reykjavíkurflugvallar. Þeir áætla núna klukkan 22:40 og lenda því í Reykjavík,“ sagði Tómas Dagur Helgason, formaður Þristavinafélagsins, á tíunda tímanum í kvöld. Hér má fylgjast með flugi vélarinnar.

Þessi 77 ára gamli forngripur er í sex mánaða hnattflugi á vegum svissneska Breitling-úraframleiðandans í því skyni að setja heimsmet. Henni er ætlað að verða elsta flugvélin til að fljúga umhverfis jörðina. 

Á morgun, sunnudag, er fyrirhugað að íslenski þristurinn Páll Sveinsson og Breitling-þristurinn fljúgi saman yfir Reykjavík og nágrenni. Tímasetning flugsins hefur ekki verið ákveðin.


Tengdar fréttir

Hnattflugsþristur á leið til Keflavíkur

Douglas DC-3 flugvélin, sem er á leið umhverfis jörðina, fór á loft frá Narsarsuaq-flugvelli nú síðdegis og áætlar lendingu á Keflavíkurflugvelli upp úr klukkan 23 í kvöldAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.