Innlent

Ísingarhætta seinkar þristaflugi til Íslands

Kristján Már Unnarsson skrifar
Douglas DC 3-vélin hóf hnattflugið frá Genf í Sviss í marsmánuði.
Douglas DC 3-vélin hóf hnattflugið frá Genf í Sviss í marsmánuði. Mynd/Breitling.

Áhöfn Douglas DC 3-fornvélarinnar, sem væntanleg var til Reykjavíkur klukkan 16 í dag, hefur seinkað brottför frá Grænlandi vegna ísingarhættu á leiðinni til Íslands. Til stóð að lagt yrði upp frá Narsarsuaq klukkan 10 í morgun en nú er áformað að flugtak verði klukkan 14. Ef sú tímasetning stenst er lending áætluð á Reykjavíkurflugvelli klukkan 20 í kvöld.

Þetta þýðir að Breitling-þristurinn nær ekki að fljúga lágflug yfir flugvöll Mosfellsbæjar á Tungubökkum í dag en þar fer fram fornvélasýning milli klukkan 12 og 17. Vonast var til að íslenski þristurinn Páll Sveinsson renndi sér yfir Mosfellsbæinn upp úr klukkan 16, að sögn Baldurs Sveinssonar flugvélaljósmyndara, en hætt hefur verið við það vegna rigningar og hvassviðris.

Koma fljúgandi forngripa til landsins vekur jafnan mikla eftirtekt íslenskra flugáhugamanna og þykir sannkölluð himnasending. Breitling-þristurinn er orðinn 77 ára gamall, smíðaður árið 1940, en það verður sífellt fátíðara að vélum frá stríðsárunum sé flogið til Íslands yfir úthafið. Þess er skemmst að minnast að Lancaster-sprengjuflugvél lenti í Reykjavík árið 2014 og Catalina-flugbátur kom árið 2012. 

Breitling-vélinni er þó ætla að gera gott betur en að komast bara yfir Atlantshafið því hún er í hnattflugi. Henni er ætlað að setja heimsmet með því að verða elsta flugvél til að fljúga umhverfis jörðina. Ráðgert að hún fari í samflug með Páli Sveinssyni yfir Reykjavík og nágrenni á morgun, sunnudag, ef veður leyfir.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.