Innlent

Skátarnir snúa aftur á Úlfljótsvatn í kvöld

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Börnin, sem veiktust mörg hver heiftarlega af magakveisu, voru flutt í fjöldahjálparmiðstöð í Grunnskólanum í Hveragerði. Alls veiktust 67 en flestir þeirra eru núna komnir til betri heilsu.
Börnin, sem veiktust mörg hver heiftarlega af magakveisu, voru flutt í fjöldahjálparmiðstöð í Grunnskólanum í Hveragerði. Alls veiktust 67 en flestir þeirra eru núna komnir til betri heilsu. vísir/Eyþór

Gert er ráð fyrir að fyrsti hópurinn af erlendum skátum snúi aftur á Úlfljótsvatn í kvöld, en um 180 skátar voru fluttir þaðan í fjöldahjálparstöð í Hveragerði aðfaranótt föstudags eftir að nóróveirusýking kom upp í hópnum.



Upphaflega stóð til að skátarnir myndu snúa aftur á Úlfljótsvatn á morgun, en sótthreinsun á svæðinu hefur farið fram í dag og í gær og hefur hún gengið vel.



„Eftir samráð við Heilbrigðiseftirlit og sóttvarnalækni á Suðurlandi þótti því ekki ástæða til að bíða lengur með að snúa til baka, þó svo að unnið verði eftir varúðarráðstöfunum á meðan beðið er eftir niðurstöðum sýnatöku,“ segir Hermann Sigurðsson, framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra skáta.



„Til dæmis verður aðeins notað aðflutt flöskuvatn og farið eftir leiðbeiningum um ítarlegt hreinlæti, handþvott og þrif.“

Margir þeirra sem höfðu veikst voru útskrifaðir úr fjöldahjálparstöðinni í Hveragerði í dag og nú er unnið að því að koma öllum hópum fyrir á næturstað.



„Hver hópur fyrir sig mun svo fljúga til síns heima á næstu dögum eins og fyrri ferðaplön þeirra segja til um,“ segir Hermann.

Fréttin hefur verið uppfærð. Skipt var um mynd þar sem sú fyrri var ekki við hæfi. Beðist er velvirðingar á birtingunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×