Innlent

Kynferðisbrot til rannsóknar í Eyjum

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Mikill fjöldi hátíðargesta var í brekkunni í gærkvöldi.
Mikill fjöldi hátíðargesta var í brekkunni í gærkvöldi. Vísir/Oskar
Eitt kynferðisbrot er til rannsóknar hjá lögreglu sem tilkynnt var um skömmu eftir miðnætti á tjaldsvæði í Herjólfsdal. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu þekktust einstaklingarnir og hafa báðir gefið skýrslu hjá lögreglu. Þolandi var færður á neyðarmóttöku og vettvangur tryggður. Sakborningi hefur verið sleppt úr haldi. 

Þess ber að geta að lögregla hefur haft þann háttinn á undanfarin ár að veita ekki upplýsingar um möguleg kynferðisbrot sem kunna að koma upp á hátíðinni. Þannig hefur hún ítrekað varist fregna af slíkum brotum þegar fréttastofa hefur spurst fyrir um þau um helgina. Lögreglan í Vestmannaeyjum greindi hins vegar frá þessu kynferðisbroti í færslu á Facebook rétt í þessu.

Nokkur erill var hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum síðastliðna nótt og framundir morgun en nokkuð var um ofbeldismál í Herjólfsdal. Fimm gistu fangageymslu, þrír vegna ölvunar og óspekta og tveir vegna ofbeldisbrota.

Þá er einnig ein líkamsárás og húsbrot til rannsóknar eftir nóttina en veist var að húsráðanda á heimili hans. 

Fjöldi fíkniefnamála er kominn á þriðja tug síðan á fimmtudag. Í einu málinu voru haldlögð um þrjátíu grömm af hvítu efni og er talið að um sölu hafi verið að ræða. Lögreglan segist að venju vera með mikinn viðbúnað varðandi þennan málaflokk. Sex óeinkennisklæddir lögreglumenn sinna þessu eftirliti með þrjá fíkniefnahunda.

Viðbragðsaðilar hittust á samráðsfundi í hádeginu í dag þar sem farið var yfir gang hátíðarinnar.






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×