Erlent

Sagði heilaæxli hafa haft áhrif á ákvörðun McCains

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
John McCain mætti í þingið til að greiða atkvæði þrátt fyrir að vera nýgreindur með krabbamein í heila. Hann kaus gegn afnámi Obamacare.
John McCain mætti í þingið til að greiða atkvæði þrátt fyrir að vera nýgreindur með krabbamein í heila. Hann kaus gegn afnámi Obamacare. Vísir/AFP
Þingmaður Rebúblikanaflokksins, Ron Johnson, gaf til kynna á þriðjudaginn að flokksbróðir sinn, John McCain, sem nýlega greindist með æxli í heila, hafi kosið gegn flokknum í atkvæðagreiðslu í þinginu sem hefði fellt Obamacare-sjúkratryggingalögin úr gildi eftir tvö ár, vegna þess að æxlið hafi haft áhrif á það hvernig hann hugsaði og kaus. Huffington Post greinir frá.

Haft var eftir Johnson að atkvæði hefðu verið greidd um frumvarpið klukkan hálf tvö um nótt og að McCain gæti hafa verið illa fyrir kallaður vegna veikinda sinna. Var Johnson inntur eftir nákvæmari útskýringu og hann spurður hvort hann teldi raunverulega að heilaæxlið hefði haft áhrif á það hvernig McCain kaus. Svaraði Johnson þá að hann viti ekki hvað hafi gerst og að hann geti ekki talað fyrir McCain en flokksmeðlimir hafi talið að hann myndi kjósa með nýja frumvarpinu.

Talsmaður McCain gaf út þá yfirlýsingu að honum þættu ummæli Johnson undarleg. Honum þyki sárt að sjá að þingmaður skuli efast um dómgreind vinar og samstarfsfélaga.

Þá hafi McCain alltaf sagt hvað honum þætti um frumvarpið. McCain kaus að halda í óbreytt heilbrigðisfrumvarp, Obamacare, á þeim forsendum að betri kostur hefði ekki komið fram; að fella Obamacare úr gildi væri alls ekki betra en ekki neitt.

Johnson svaraði á þann hátt að hann sæi eftir ummælum sínum.

„Ég varð fyrir vonbrigðum með að ég hafi ekki náð að koma samkennd minni til McCain til skila. Ég virði hann og atkvæðagreiðslan var í lok dags sem hafði verið langur og strembinn fyrir alla,“ sagði Johnson í yfirlýsingu.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×