Innlent

Má búast við uppbyggingu eftir friðlýsingu Jökulsárlóns

Björt Ólafsdóttir, umhverfisráðherra.
Björt Ólafsdóttir, umhverfisráðherra. Vísir/Anton Brink
Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritar í dag reglugerð sem felur í sér friðlýsingu Jökulsárlóns og nærliggjandi svæðis sem hluta Vatnajökulsþjóðgarðs.

„Ég er rosalega ánægð með þessa friðlýsingu. Hún markar tímamót í náttúruvernd og uppbyggingu á friðlýstum svæðum á landinu,“ segir Björt og bætir við að með friðlýsingunni sé Ísland í fyrsta sinn að friðlýsa land allt frá fjalli og ofan í fjöru.

Ráðherra segir að búast megi við því að uppbygging á svæðinu hefjist í kjölfar friðlýsingar. „Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs fer með þau áform. Ég veit að fólk er að vinna að því að finna bestu lausnir hvað varðar bílastæði og aðgengi og hefur í huga að haga uppbyggingu á þann hátt að hún skerði ekki upplifun ferðamanna.“

Björt segir einstaklega ánægjulegt að verið sé að friðlýsa svæðið nú skömmu eftir að ríkið keypti jörðina Fell. „Ég vil líka þakka fyrir það að heimamenn, sérstaklega sveitarstjórn Hornafjarðar, hafa staðið þétt að málinu og allir verið samstíga hvað gera skal. Þessi mikla samvinna hefur leitt málið til lykta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×