Innlent

Hlakkar til heimkomu eftir afrekið mikla á K2

Aðalheiður Ámundadóttir og Þórgnýr Einar Albertsson skrifa
John Snorri Sigurjónsson varð fyrstur Íslendinga upp á K2.
John Snorri Sigurjónsson varð fyrstur Íslendinga upp á K2. Mynd/Kári Schram
„Vonandi kemst hann til landsins sem fyrst. Ég veit hann langar heim,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Lífs, styrktarfélags kvennadeildar Landspítalans, um John Snorra Sigurjónsson. Hann komst upp á topp eins illkleifasta fjalls veraldar, K2, fyrstur Íslendinga í gær. Safnaði John Snorri styrkjum fyrir félagið á meðan á göngu stóð.

Hjördís telur að John Snorri eigi um tveggja vikna ferðalag fram undan. Hann er væntanlegur niður í grunnbúðir K2 í dag, sem er óvænt að sögn Hjördísar. „Þeir ætluðu sér að fara niður í skrefum.“

Fljótlega eftir komuna í grunnbúðirnar mun John Snorri halda niður fjallið með föruneyti sínu. Tekur þá við fimm til sex daga ganga niður í byggð. „Þegar þangað er komið þurfa þeir að koma sér í flug áleiðis til Íslands. Þetta verður um það bil tveggja vikna ferðalag,“ segir Hjördís.

Í samtali við fréttastofu í gær sagði John Snorri að ferðalagið niður fjallið væri í raun erfiðasti hluti leiðangursins. „Þegar maður er á leiðinni niður þá snýr maður baki í fjallið og þá er miklu erfiðara að vera var um sig varðandi snjóflóð og grjóthrun.“

Hjördís segir söfnunina hafa tekið kipp síðustu klukkutímana áður en tindi var náð. Þá hafi hún einnig aukist eftir því sem John Snorri færðist nær toppi fjallsins. Styrktarféð verður nýtt í samráði við deildarstjóra kvennadeildarinnar og nefnir Hjördís að til dæmis gæti það verið nýtt í skoðunarbekki og skoðunarljós. Hjördís sagðist þó ekki geta gefið upp hversu mikið hefði safnast.

Annar ofurhugi og fjallgöngugarpur, Vilborg Arna Gissurardóttir, sagði vægt til orða tekið þegar Fréttablaðið spurði hana hvort um mikið afrek væri að ræða. „Þetta er gríðarlega mikið afrek,“ sagði Vilborg sem hefur sjálf meðal annars klifið Everestfjall.

„Það sem ég vil líka leggja áherslu á, og finnst hafa gleymst í umræðunni, er að hann er ekki bara búinn að klífa eitt 8.000 metra fjall. Hann er búinn að klífa tvö á mjög stuttum tíma,“ segir Vilborg. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.