Erlent

Leita meðlima hryðjuverkahóps í Brussel

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar að störfum í Brussel.
Lögregluþjónar að störfum í Brussel. Vísir/AFP
Lögreglan í Brussel leitar nú nokkurra manna sem taldir eru vera meðlimir í hryðjuverkahópi. Fjórir voru handteknir í gær eftir að umtalsvert magn af vopnum fannst við húsleit í borginni, en einnig fundust lögreglubúningar. Óttast er að þeir sem leitað er að muni fremja hryðjuverkaárás í borginni.

Yfirvöld gruna að mennirnir hafi ætlað að dulbúa sig sem lögregluþjóna og fremja árás. Óttast er að fundur vopnanna og búninganna muni leiða mennina sem enn er leitað er að til þess að fremja árás, eins og gerðist í mars í fyrra.

Árásirnar á flugvellinum í Brussel og í neðanjarðarlestarkerfi borgarinnar voru framdar eftir að lögreglan fann vopn og var að leita meðlima Íslamska ríkisins. 32 létu lífið og rúmlega 300 særðust.

Af þeim fjórum sem voru handteknir í gær hafa tveir verið ákærðir, samkvæmt Sky News. Þeir eru sagðir vera bræður dæmds vígamanns ISIS. Leit stendur nú yfir að fleiri mönnum.

„Við óttumst að þeim finnist þeir innikróaðir. Því óttumst við sömu viðbrögð og 22. mars,“ segir Eric van der Sypt, talsmaður ríkissaksóknara Belgíu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.