Innlent

Stórkostlegt sjónarspil þegar almyrkvi gengur yfir Bandaríkin

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Eitt stórkostlegasta sjónarspil náttúrunnar mun gleðja milljónir manna í Bandaríkjunum í ágúst þegar almyrkvi gengur yfir landið. Næsti almyrkvi sem sést frá Íslandi verður eftir níu ár - Stjörnu-Sævar ætlar ekki að bíða eftir því og heldur vestanhafs á næstu dögum.

Þetta verður í fyrsta skipti síðan árið nítján hundruð og átján sem almyrkvi nær yfir Bandaríkin þver og endilöng. Þetta verður sennilega sá sólmyrkvi sem flestir munu sjá.

Tunglið gengur milli sólar og Jarðar þann 21. ágúst. Það er í raun stórkostleg, kosmísk tilviljun að slíkt geti yfir höfuð gerst – sólin er 400 sinnum stærri en tunglið, en tunglið er 400 sinnum nær okkur en sólin.

„Þetta er náttúrulega almyrkvi. Fyrir tveimur árum þá fengum við deildarmyrkva, þegar tunglið fór fyrir hluta sólarinnar,“ segir Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefsins. „Munurinn er eins og dagur og nótt. Þetta er einhver stórkostlegasta sýning náttúrunnar sem hægt er að sjá. Ég fæ ennþá gæsahúð þegar ég hugsa um þennan eina almyrkva sem ég hef séð sem var í Indónesíu í fyrra.“

Sævar Helgi eltir almyrkvann til Bandaríkjanna og heldur vestur um haf á næstu dögum. Þolinmóðir geta beðið eftir almyrkva hér á Íslandi en hann verður eftir níu ár. 

„Við fáum svona tækifæri eftir níu ár, þegar almyrkvi gengur yfir Ísland. Það hefur ekki sést almyrkvi í Reykjavík síðan árið 1433 og þar á eftir verður almyrkvi árið 2196. Þannig að það þarf stundum að bíða lengi og eins gott að nýta tækifærið þegar það gefst.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×