Innlent

Krúttleg refafjölskylda bræðir hjörtu landsmanna

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar

„Ég náði þeim bara þegar þeir voru að stinga nefinu út í fyrsta sinn úr greninu sínu,“ segir Þórir Kjartansson, íbúi í Vík í Mýrdal um litla refafjölskyldu í Vík sem hefur vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum. Þórir náði fjölskyldustundinni á myndband en þar má sjá tófu ásamt sjö yrðlingum sem eru í óða önn að læra á heiminn.

„Það er refur í þessu greni á hverju einasta ári, búinn að vera mörg ár þannig að ég veit vel um þetta. Það er gott að komast að þessu og þetta er þriðja vorið sem ég er að mynda þarna,“ segir Þórir. Hann segir að hann sé oft með myndavélina á lofti og njóti þess að taka myndir af íslenskri náttúru og dýralífi.

Hann nefnir að ekki sé um að ræða sömu tófuna og í fyrra. Hinar hafi lent í klónum á refaskyttum. Þórir nefnir að hann hafi þurft að hafa hraðar hendur við að ná myndefninu áður en refaskyttur kæmust á snoðir um refina.

Þórir nefnir að það hafi aldrei verið jafn margir yrðlingar í greninu og nú. „Það segir manni það að frjósemi hjá refnum er alltaf að aukast. Hérna í gamla daga voru yfirleitt ekki meira en þrír yrðlingar á greni,“segir Þórir og nefnir refir hafi hins vegar verið að aukast í Mýrdalnum. Hann minnist þess þegar hann var yngi og átti heima á bóndabæ. Þá hafi fundist tófugreni í námunda við bæinn.

„Þá hafði ekki sést tófa hérna í Mýrdalnum svo elstu menn mundu en síðan fór þetta að vaxa smátt og smátt,“ segir Þórir.

Þórir nefnir að refurinn lifi mikið á fuglum og þá sérstaklega fílnum, sem heldur til í hömrum við sjó. Hins vegar hefur refurinn nánast gert út af við Skúminn á Mýrdalssandinum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.