Innlent

Héraðsbúar buðu lægst í Berufjörð

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá þjóðveginum í botni Berufjarðar.
Frá þjóðveginum í botni Berufjarðar. Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Tilboð í að ljúka gerð hringvegarins um Berufjarðarbotn voru opnuð hjá Vegagerðinni í dag. Fjögur tilboð bárust og var það lægsta upp á 843 milljónir króna. Það barst frá fyrirtækjunum Héraðsverki ehf. og MVA ehf. á Egilsstöðum og var 4,4 prósent yfir kostnaðaráætlun, sem hljóðaði upp á 807 milljónir króna.

Önnur tilboð voru talsvert yfir kostnaðaráætlun. Suðurverk átti næstlægsta boð, upp á 921 milljón króna, ÍAV bauðst til að vinna verkið fyrir 993 milljónir króna og Borgarverk fyrir 1.035 milljónir, sem var hæsta boð og 28 prósent yfir áætlun. 

Frá hringveginum við bæinn Hvannabekku í botni Berufjarðar.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Hringvegurinn verður styttur um þrjá kílómetra með því að leggja hann á eins kílómetra kafla yfir voginn í botni fjarðarins. Í stað átta kílómetra malarvegar verður lagður fimm kílómetra malbiksvegur. Jafnframt verður 50 metra löng brú smíðuð og 1,7 kílómetra langar heimreiðar lagðar að bæjunum Berufirði og Hvannabrekku.

Verkinu skal að fullu lokið 1. september 2018. Þá verður í fyrsta sinn hægt að aka hring umhverfis Ísland á bundnu slitlagi, þó ekki um þjóðveg 1 um Breiðdalsheiði heldur með því að aka fjarðaleiðina um Stöðvarfjörð, Fáskrúðsfjörð og Reyðarfjörð.


Tengdar fréttir

Mótmæli sveitunga munu engu breyta

Samgönguráðherra segist skilja vel gremju fólks vegna niðurskurðar á samgönguáætlun. Um 200 íbúar í Berufjarðarbotni og nærsveitum lokuðu þjóðvegi 1 í tvær klukkustundir í gær með um 60 bílum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×