Erlent

Leið­togi DUP segir stjórnar­myndunar­við­ræður miða vel

Atli Ísleifsson skrifar
Arlene Foster, formaður DUP, og Nigel Dodds, varaformaður DUP, við Downingstræti 10 í morgun.
Arlene Foster, formaður DUP, og Nigel Dodds, varaformaður DUP, við Downingstræti 10 í morgun. Vísir/AFP
Arlene Foster, formaður Lýðræðislega sambandsflokksins (DUP), segir að viðræður flokksins og breskra Íhaldsmanna miða vel.

Íhaldsflokkur Theresu May forsætisráðherra missti meirihluta sinn á þingi í þingkosningunum sem fram fóru á fimmtudag og hefur May sagst vilja mynda minnihlutastjórn með stuðningi DUP.

May og Foster hafa fundað í London í dag til að ræða stjórnarsamstarf. Foster greindi frá því í tísti að eftir rúmlega klukkustundar langar viðræður standi von til að hægt verði að ná samkomulagi innan skamms.

BBC hefur sömuleiðis eftir nafnlausum heimildarmönnum sínum að samkomulag milli flokkanna sé í stórum dráttum þegar í höfn. Andstæðingar hafa lýst yfir áhyggjum af samstarfi flokkanna vegna andstöðu DUP við hjónabönd samkynhneigðra og frjálsar fóstureyðingar.

May mun halda til Parísar síðar í dag til að funda með Emmanuel Macron Frakklandsforseta. Leiðtogarnir munu svo fylgjast saman með vináttulandsleik Englands og Frakklands í fótbolta á Stade de France í París.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×