Innlent

Fatimusjóðurinn gefur 8,6 milljónir til barna í Jemen

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF, og Rannveig Guðmundsdóttir frá Fatimusjóðnum.
Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF, og Rannveig Guðmundsdóttir frá Fatimusjóðnum. mynd/laufey elíasdóttir
Fatimusjóðurinn, sem Jóhanna Kristjónsdóttir heitin stofnaði, afhenti UNICEF í dag 8,6 milljónir króna en fjármunirnir eru afrakstur söfnunar sem Jóhanna stóð fyrir allt þar til hún lést í maí síðastliðnum sem og afrakstur skákmaraþons Hrafn Jökulssonar og Hróksins.

Í tilkynningu frá UNICEF segir að upphæðin renni til stríðshrjáðra barna í Jemen en síðastliðin tvö ár hefur geisað borgarastyrjöld í landinu og er hungursneyð nú yfirvofandi.

Talið er að um 80 prósent barna í Jemen þurfi á aðstoð að halda og vinna starfsmenn UNICEF í landinu að því dag og nótt að veita börnum neyðaraðstoð.

Fatimusjóðurinn var stofnaður árið 2005 og var upphaflega ætlað að styðja við menntun barna í Jemen. Síðustu ár hefur hann svo beitt sér fyrir margvíslegri uppbyggingu og neyðaraðstoð í Mið-Austurlöndum og verið í samstarfi við UNICEF.

„Framlag Fatimusjóðsins er ómetanlegt og við hjá UNICEF á Íslandi erum innilega þakklát fyrir stuðninginn. Við minnumst Jóhönnu af miklum hlýhug og erum þakklát fyrir allt hið góða sem hún kom til leiða fyrir konur og börn í Jemen, Sýrlandi og víðar. Ótal börn sem aldrei hittu hana eiga henni svo margt að þakka,“ er haft eftir Bergsteini Jónssyni, framkvæmdastjóra UNICEF á Íslandi, í tilkynningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×