Innlent

Bíll endaði úti í Ölfusá eftir eftirför lögreglu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá vettvangi.
Frá vettvangi. vísir

Ökumaður bíls sem lögreglan veitti eftirför á Hellisheiði á leið austur í morgun, sem endaði úti í Ölfusá, er kominn á land. Hann var í framhaldinu fluttur af vettvangi í sjúkrabíl og til Reykjavíkur.

Maðurinn var með meðvitund samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi þegar honum var bjargað en blóðugur að sögn sjónarvotta. Hann hafði verið á þaki bílsins úti í Ölfusá í töluverða stund.

Eftirför lögreglu hófst klukkan 09:56 í Ártúnsbrekku þar sem ökumaðurinn sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu, að því er fram kemur í tilkynningu. Eftirförinni lauk svo þegar fólksbíllinn sem maðurinn ók hafnaði í Ölfusá.

Maðurinn náði að koma sér út úr bílnum og upp á þak hans rétt undir Ölfusárbrúnni. Var Ölfusárbrú í framhaldinu lokað. Björgunarsveitarmenn komu línu til mannsins sem hann festi sig í á meðan reynt var að ná til hans á báti. Rétt fyrir klukkan ellefu var maðurinn kominn á fast land en björgunarsveitarmenn björguðu honum á báti.
 
Mikill viðbúnaður er á staðnum og fjöldi fólks fylgdist með björgunaraðgerðum. Auk lögreglu og björgunarsveita var stigabíll frá slökkviliðinu sendur á vettvang auk þess sem kranabíll er á vettvangi þar sem hífa á bílinn upp úr ánni.

Uppfært klukkan 11:23.

Myndband af björgunaraðgerðum í Ölfusá má sjá hér fyrir neðan.

Kranabíll slökkviliðsins var sendur á vettvang. Úti í ánni má sjá björgunarbát og bílinn sem lögreglan veitti eftirför.

Myndband af því þegar björgunarbátur siglir niður ána til móts við manninn má sjá hér fyrir neðan.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.