Innlent

Guðni færði finnsku þjóðinni listaverk eftir Hrein Friðfinnsson

Atli Ísleifsson skrifar
Íslensku og finnsku forsetahjónin.
Íslensku og finnsku forsetahjónin. finnska forsetaskrifstofan
Guðni Th. Jóhannesson forseti færði finnsku þjóðinni listaverkið Afsteypu - Cast - eftir Hrein Friðfinnsson að gjöf í tilefni af hundrað ára afmæli sjálfstæðis Finna í Helsinki í dag.

Í tilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands segir að listaverkinu fylgi áritaður skjöldur þar sem fram komi að gjöfin sé frá ríkisstjórn Íslands til finnsku þjóðarinnar. 

„Hreinn Friðfinnsson er í hópi ástsælustu myndlistarmanna samtímans á Íslandi. Hann nýtur virðingar á Norðurlöndum, einkum í Finnlandi, en hafa má til marks um það að Hreinn hlaut hin norrænu Carnegie verðlaun árið 2000 og sama ár viðurkenningu Ars Fennica, sem Finnar veita framúrskarandi samtímalistamönnum á hverju ári. 

Verk Hreins eru til sýnis á virtum samtímalistasöfnum víða um heim, bæði opinberum söfnum og einkasöfnum. Listamaðurinn hefur um árabil verið í samstarfi við eitt nafntogaðasta samtímalistagallerí Finnlands sem hefur kynnt verk hans þar og á alþjóðlegum myndlistarviðburðum víða um lönd,“ segir í tilkynningunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×