Erlent

21 alvarlega særður eftir árásina í London

Atli Ísleifsson skrifar
Þetta er þriðja hryðjuverkaárásin í Bretlandi á síðustu þremur mánuðum.
Þetta er þriðja hryðjuverkaárásin í Bretlandi á síðustu þremur mánuðum. Vísir/afp
Talsmaður heilbrigðisyfirvalda segir að 21 sé alvarlega særður eftir hryðjuverkaárásina á London Bridge og við Borough Market í gærkvöldi. Sjö létust í árásinni, auk árásarmannanna þriggja sem voru skotnir til bana af lögreglu.

Árásarmennirnir voru skotnir til bana af átta lögreglumönnum sem alls skutu fimmtíu skotum í átt að mönnunum. Fyrir slysni varð óbreyttur borgari einnig fyrir skoti. Þetta sagði Mark Rowley hjá Lundúnalögreglunni nú síðdegis.

Tólf manns hafa verið handteknir í Barking, austur af bresku höfuðborginni, í kjölfar húsleitar í íbúð eins árásarmannanna.

Hvítum sendiferðabíl var ekið á gangandi vegfarendur á London Bridge um klukkan 22 að staðartíma í gærkvöldi. Eftir að bílnum hafði verið stöðvað héldu þrír árásarmenn út úr bílnum og stungu fólk með hníf nærri Borough Market. Þeir voru skotnir til bana af lögreglu innan við átta mínútum eftir að fyrsta tilkynningin barst um atvikið á London Bridge.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, fordæmdi árásina og sagði að nú væri tími til að segja að nóg sé komið. Þetta er þriðja hryðjuverkaárásin í Bretlandi á síðustu þremur mánuðum.

Að sögn íbúa í blokkinni í Barking hafði maðurinn sem talinn er hafa verið einn árásarmanna, búið í blokkinni í þrjú ár og verið giftur tveggja barna faðir.

Flestir bresku stjórnmálaflokkanna hafa gert hlé á kosningabaráttu sinni, en henni verður fram haldið á morgun. Þingkosningar fara fram í landinu á fimmtudaginn 8. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×