Erlent

Norðmenn gera sjónvarpsþáttaröð um árásina í Útey

Atli Ísleifsson skrifar
Alls létu 77 manns lífið þegar Norðmaðurinn Anders Behring Breivik sprengdi sprengju í stjórnarráðshverfinu í Ósló áður en hann hélt út í eyjuna Útey, klæddur sem lögreglumaður, þar sem hann stráfelldi mikinn fjölda ungmenna sem voru saman komin í sumarbúðum ungliðahreyfingar norska Verkamannaflokksins.
Alls létu 77 manns lífið þegar Norðmaðurinn Anders Behring Breivik sprengdi sprengju í stjórnarráðshverfinu í Ósló áður en hann hélt út í eyjuna Útey, klæddur sem lögreglumaður, þar sem hann stráfelldi mikinn fjölda ungmenna sem voru saman komin í sumarbúðum ungliðahreyfingar norska Verkamannaflokksins. Vísir/AFP
Norska ríkissjónvarpið hyggst ráðast í gerð sjónvarpsþáttaraðar um hryðjuverkaárásina í Ósló og Útey árið 2011. Þáttaröðin mun bera nafnið „22. júlí“.

Alls létu 77 manns lífið þegar Norðmaðurinn Anders Behring Breivik sprengdi sprengju í stjórnarráðshverfinu í Ósló áður en hann hélt út í eyjuna Útey, klæddur sem lögreglumaður, þar sem hann stráfelldi mikinn fjölda ungmenna sem voru saman komin í sumarbúðum ungliðahreyfingar norska Verkamannaflokksins.

Hjónin Sara Johnsen og Pål Sletaune standa fyrir gerð þáttanna þar sem einblínt verður á þá sem í gegnum störf sín komu að málinu. Þættirnir munu því ekki fjalla um Breivik, nema þá með óbeinum hætti. Þannig verður fjallað um þá sem sáu um að jarða hina látnu, bjarga og hlúa að hinum særðu, hugga þá sem syrgðu og dæma þann seka.

Í frétt NRK er Sletaune spurður að því hvort hann telji ekki að of snemmt sé að framleiða sjónvarpsþætti um þetta mál sem skók norsku þjóðina fyrir sex árum. „Við getum ekki látið eins og 22. júlí hafi ekki gerst. Það yrði mesti glæpurinn að gleyma þessum degi. Þess vegna er mikilvægt að segja þessar sögur.“

Johnsen skrifar handrit þáttanna og Sletaune mun halda utan um leikstjórn, en þættirnir verða sex talsins, hver klukkustundar langur. Áætlað er að þættirnir verði frumsýndir haustið 2019.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×