Innlent

Unnið að reglugerð um fylgdarlaus börn

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra.
Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra. visir/ernir
Dómsmálaráðuneytið vinnur að reglugerð er varðar fylgdarlaus börn sem koma hingað til lands, sagði Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra við fyrirspurn Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur, þingmanns VG, um málefnið á Alþingi í dag.

Tilefni fyrirspurnar Rósu Bjarkar er málefni sextán ára drengs frá Marokkó sem kom hingað til lands í desember í fyrra en hefur verið synjað um hæli. Drengurinn er fylgdarlaus samkvæmt skilgreiningu en er hér á landi ásamt eldri bróður sínum.

„Yngri drengurinn er í tvöfalt veikri stöðu sem fylgdarlaust barn annars vegar og vegna kynhneigðar hins vegar. Hér sem endranær vísa íslensk stjórnvöld blygðunarlaust í Dyflinnarreglugerðina sem grundvöll þess að senda bræðurna frá Íslandi í stað þess að afgreiða mál þeirra hér,“ sagði Rósa.

Rósa sagðist jafnframt hafa sent Sigríði fyrirspurn um málefni fylgdarlausa barna fyrir tveimur mánuðum en ekkert svar fengið. Vildi hún meðal annars vita hvort fylgdarlaus börn hafi verið send til annars viðkomulands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og hvort íslensk stjórnvöld gangi úr skugga um að fylgdarlaus börn fái aðbúnað og málsmeðferð hér á landi.

Sigríður svaraði því til að börn séu ekki send úr landi nema þeim sé tryggð nægileg vernd í því landi sem þau verða send til.

„Þannig að það liggur alveg fyrir að fylgdarlaus börn eins og önnur börn eru skilgreind, bæði samkvæmt lögum, reglum g í verklagi, sem viðkvæmur hópur. (Gripið fram í: Af hverju eru þau þá send úr landi?),“ sagði Sigríður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×