Innlent

Raufarhólshellir greiðfær til að sýna ferðamönnum

Kristján Már Unnarsson skrifar
Aðgengi að Raufarhólshelli í Þrengslunum hefur nú verið stórbætt enda er hann að fá nýtt hlutverk sem ferðamannastaður, þar sem seldur verður aðgangur með leiðsögn um einn stærsta helli Íslands. Í fréttum Stöðvar 2 var rætt við Hallgrím Kristinsson, framkvæmdastjóra Raufarhóls ehf. 

Það er um hálftíma akstur að hellinum úr Reykjavík en þar rís nú þjónustuhús þar sem hellafarar fá afhenta hjálma og ljós. Í dag var verið að þjálfa væntanlega leiðsögumenn en fyrirtækið Raufarhóll ehf. hefur tekið hellinn á leigu frá landeigendum í því skyni að bjóða upp á skipulagðar skoðunarferðir.

Vandinn var hins vegar sá að vegna grjóturðar og stórgrýtis hefur verið erfitt að klöngrast um þennan 1.360 metra langa helli, þann lengsta á landinu utan Hallmundarhrauns. 

„Hér hefur fólk verið að slasa sig og detta í gegnum árin og margoft þurft að kalla á björgunarsveitir. En sem betur fer ekki alvarleg slys. En með þessu móti erum við að gera hann greiðfæran og gefa fólki aðgengi að hellinum, sem annars hefði átt í erfiðleikum með að koma hingað inn,” segir Hallgrímur. 

Inni í Raufarhólshelli. Hallgrímur Kristinsson sýnir fréttamanni göngupall.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Það voru hins vegar kvikmyndagerðarmenn sem hófu stígagerðina við gerð bíómyndarinnar um Noah svo að þeir Russel Crowe og Anthony Hopkins færu sér ekki að voða. Stígurinn sem lagður var fyrir leikarana þótti góð fyrirmynd, grjót úr hellinum var notað til að hlaða greiðfæran göngustíg. 

En sumsstaðar var hreinlega ekki hægt að leggja stíga og þar var ákveðið að smíða palla úr járni, sem ryðgar að ákveðnu marki til samræmis við ryðrauðan lit, sem víða sést í hellisveggjum. 

„Þannig að þetta fellur ofboðslega vel hér inn. Það smitar ekki út frá sér. Og þessa palla er hægt að taka eftir tugi ára og allt verður eins og áður var.” 

Verið er að koma fyrir ljóskösturum til að ferðamenn njóti þess að sjá jarðmyndanir og litadýrð og er þess gætt að raflagnir og ljósabúnaður sjáist sem minnst, að sögn Hallgríms.

Raufarhólshellir er við Þrengslaveg, skammt ofan Þorlákshafnar. Þar rís nú þjónustuhús með salernum og bílastæðið hefur verið stækkað.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Hellirinn verður formlega opnaður á ný þann 1. júni en um helgina verður þar opið hús, eða raunar opinn hellir, og aðgangur ókeypis. Takmarkaður fjöldi kemst þó að um helgina og frá föstudegi verður hægt að skrá sig á heimasíðu hellisins, The Lava Tunnel. 

Aðgangseyrir fyrir fullorðna verður annars 4.900 krónur í sumar, lægra verð fyrir börn, en fer síðar í 6.400 krónur. Á bak við verkefnið standa fjárfestar sem flestir eru í ferðaþjónustu. 

En hve mikil er fjárfestingin? 

„Hún hleypur á mörghundruð milljónum króna,” svarar Hallgrímur.


Tengdar fréttir

Björguðu þremur konum úr niðamyrkum helli

Þrjár konur sátu klukkustundunum saman í niðamyrkri djúpt inni í Raufarhólshelli í Þrengslunum ofan við Þorlákshöfn í gærdag, uns björgunarsveitarmenn fundu þær um klukkan hálf átta í gærkvöldi og hjálpuðu þeim út.

Um 150 Íslendingar fóru með hlutverk í Noah

Alls unnu 220 manns að kvikmyndinni Noah, sem tekin var upp að hluta til hér á landi, og voru Íslendingar meira en helmingur þeirra. Um 150 Íslendingar fóru með misstór hlutverk í myndinni. Leigðar voru samtals 3.650 nætur á hótelherbergjum. Tökuliðið leigði þrjátíu jeppa, tíu sendibíla og 75 fólksbíla.

Ómetanlegir hraunhellar þegar verið stórskemmdir

Frjáls umferð almennings og ferðaþjónustufyrirtækja hefur valdið óbætanlegum skaða á flestum merkustu hraunhellum landsins. Grípa þarf til heildarfriðlýsingar að mati samráðsnefndar og loka tugum hella án tafar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×