Innlent

Segir stofnun Framfarafélagsins merki um slæma stöðu Framsóknarflokksins

Nadine Guðrún Yaghi og Oddur Ævar Gunnarsson skrifa
Stjórnmálafræðingur segir stofnun Framfarafélagsins vera enn eitt merki um slæma stöðu Framsóknarflokksins. Með stofnun félagsins opnist margar leiðir fyrir Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann þess.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra er formaður Framfarafélagsins en hann sagði í ræðu sinni í gær á fyrsta fundi félagsins að það eigi að stuðla að framförum á öllum sviðum samfélagsins og að félagsmenn komi víða að úr samfélaginu.

Tilgangur með stofnun félagsins væri að búa til vettvang fyrir frjóa umræðu fyrir hugmyndir og hvernig væri best að leysa hin ýmsu mál sem samfélagið stendur frammi fyrir. Sigmundur sagði að allir flokkar ættu að geta nýtt sér starf félagsins. 

Á þriðja hundrað manns mætti á fyrsta fund félagsins en þangað mættu mótherjar Sigmundar Davíðs úr Framsóknarflokknum ekki.

Eva Heiða Önnudóttir, stjórnmálafræðingur, segir margar leiðir opnast fyrir Sigmund Davíð með stofnun félagsins.

Þetta gæti verið ansi klókur leikur hjá honum og ég er ekki sú fyrsta sem segir það. Hann er bæði að sýna hver hans staða er í dag og jafnframt er hann að búa til umræðuvettvang og mögulega vettvang sem gæti orðið einhverskonar stjórnmálaflokkur í framtíðinni.

Þannig sé stofnun félagsins mögulega vettvangur fyrir sérframboð Sigmundar í framtíðinni.

„Átökin innan Framsóknarflokksins hefur ekkert að gera með málefnin heldur fyrst og fremst persónur og leikendur eða hver á að leiða flokkinn.

Þannig maður veit svo sem ekki ef að þetta verður mögulega framboð einhverntímann í framtíðinni hversu frábrugðið það yrði til dæmis Framsóknarflokknum.“

Helduru að þetta nýja félag eigi eftir að koma til með að veikja eða styrkja stöðu Framsóknarflokksins?

„Ég held að þetta nýja félag sé bara mögulega enn eitt merkið um átökin sem eru innan flokksins. Staðan er frekar veik eins og er og þetta er klárlega ekki til að styrkja stöðu Framsóknarflokksins sem heildstæð flokks sem kemur fram sameinaður en við eigum eftir að sjá hvernig þetta spilast út.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×